Mæta vaxandi eftirspurn með klónun

Í verksmiðjunni stendur til að klóna nautgripi, veðreiðahesta og leitarhunda.
Í verksmiðjunni stendur til að klóna nautgripi, veðreiðahesta og leitarhunda. AFP

Í Kína stendur til að starfrækja stærstu klónunarverksmiðju í heimi, sem mun hafa þann megintilgang að klóna nautgripi til að mæta vaxandi eftirspurn eftir nautakjöti. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins á bakvið verkefnið segir það hins vegar ekki síður mikilvægt vegna þess að hægt verður að nota tæknina til að bjarga tegundum í útrýmingarhættu.

Að sögn Xu Xiaochun mun verksmiðjan hefja starfsemi á fyrri hluta næsta árs í borginni Tianjin. Umrætt fyrirtæki, BoyaLife, hyggst framleiða 100.000 „hágæða“ nautgripafóstur á ári og þá stendur einnig til að klóna veðreiðahesta og leitarhunda.

Vísindamenn á meginlandi Kína hafa unnið að klónun nautgripa, svína og sauðfés í um 15 ár og árið 2014 sagði BBC frá því að kínveskt fyrirtæki, BGI, væri að klóna dýr á iðnaðarskala í borginni Shenzhen.

Verksmiðjan í Tianjin er samstarfsverkefni BoyaLife og Soam Biotech, en framkvæmdastjóri þess er vísindamaðurinn Hwang Woo-suk. Hwang var eitt sinn kallaður „konungur klónunar“ en var ásakaður um að hafa falsað rannsóknir árið 2006.

Soam hefur unnið að klónun hvolpa í borginni Weihai í samstarfi við BoyaLife og í fyrra gaf Xu í skyn að einhvern tímann í framtíðinni yrði hægt að klóna risapöndu í sömu verksmiðju.

Kínverskir ríkisfjölmiðlar hafa leitast við að sannfæra almenning um að neysla afurða af klónuðum nautgripum sé hættulaus.

Ítarlega frétt er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert