„Geimverubyggingar“ líklega halastjörnur

Teikning af stjörnu sem brot úr halastjörnu skyggja á.
Teikning af stjörnu sem brot úr halastjörnu skyggja á. NASA/JPL-Caltech

Stjarnan KIC 8462852 komst í heimsfréttirnar í haust þegar þeirri kenningu var varpað fram að risavaxnar byggingar geimvera gengu á braut um hana. Frekari rannsóknir á stjörnunni benda til þess að í raun hafi það verið hópur halastjarna sem vísindamenn komu auga á með Kepler-geimsjónaukanum.

Þegar vísindamenn greindu frá óvenjulegum mælingum á stjörnunni sem komu fram við leit að fjarreikistjörnum með Kepler-sjónaukanum hljóp ímyndunaraflið með suma þeirra, og fjölmiðla, í gönur. Sjónaukinn hafði greint breytingar á birtustigi stjörnunnar sem höfðu hvergi sést annars staðar. Svo virtist sem að klasi misstórra fyrirbæra gengi á braut um stjörnuna.

Líklegustu kenningarnar sem voru settar fram strax í upphafi voru á þá leið að þar væri á ferð leifar reikistjörnu sem hefði splundrast við árekstur við annað fyrirbæri í þessu fjarlæga sólkerfi eða halastjörnur sem þyngdarkraftur stjörnunnar hefði rifið í sundur. Langsóttasta skýringin, og sú sem hlaut mesta athygli fjölmiðla, var hins vegar sú að geimverur hefðu komið fyrir risavöxnum byggingum á braut um stjörnuna, mögulega til að framleiða orku.

Minnir á uppgötvun tifstjarna

Kepler-sjónaukinn tekur myndir í sýnilegu ljósi. Til þess að komast að raun um hvort að fyrirbærið á braut um KIC 8462852 gæti verið leifar reikistjörnu notuðu vísindamenn gögn frá Spitzer-geimsjónaukanum en hann gerir rannsóknir í innrauðu ljósi. Hefði árekstur orðið við reikistjörnu ættu merki að vera um það í formi innrauðrar geislunar frá glóandi leifunum.

Spitzer fann hins vegar engin merki um verulega innrauða geislun við stjörnuna. Því telja vísindamenn nú að líklegasta skýringin á fyrirbærinu sé kaldar halastjörnur. Mögulegt er talið að hópur þeirra gangi á langri og sérkennilegri braut um stjörnuna sem hafi valdið óvenjulegum breytingum á birtu stjörnunnar séð frá jörðinni.

Frekari rannsóknar er hins vegar þörf til að skera úr um orsakir fyrirbærisins, að sögn Massimo Marengo frá Ríkisháskóla Iowa í Ames sem hefur birt grein um niðurstöður sínar sem birtist í Astrophysical Journal Letters.

„Þetta er mjög skrýtin stjarna. Hún minnir mig á þegar við uppgötvuðum fyrst tifstjörnur. Þær gáfu frá sér undarleg merki sem enginn hafði séð áður og sú fyrsta sem var uppgötvuð var nefnd LGM-1 eftir „litlum grænum mönnum“,“ segir Marengo.

Merkin frá LGM-1 reyndust eiga sér fullkomlega náttúrulegar skýringar.

„Við vitum kannski ekki ennþá hvað er í gangi í kringum þessa stjörnu en það er það sem gerir hana svo áhugaverða,“ segir Marengo.

Frétt á vef NASA um rannsóknina

Fyrri frétt mbl.is: Geimverur neðstar á blaði

Teikning af Spitzer-geimsjónaukanum.
Teikning af Spitzer-geimsjónaukanum. NASA/JPL-Caltech
mbl.is
Borðstofustólar til sölu
25 stk. af notuðum borðstofustólarólum til sölu á kr. 2.000 kr stk. seljast hel...
Húsnæði óskast í sumar í Hafnarfirði eða nágrenni.
Húsnæði óskast í júlí og ágúst í Hafnarfirði eða nágrenni, 3 svefnherbergi Vin...
Gisting við Gullna hringinn..
Studio herb. með sérbaði og eldunaraðstöðu, heitur pottur utandyra, 6 mínútur fr...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...
 
Framhald uppboðs
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Deiliskipulag
Tilkynningar
Rangárþing ytra Auglýsing um skipula...
Félagsstarf aldraða
Staður og stund
Árskógum 4 Félagsstarfið er með opið í s...
Eldri borgarar
Staður og stund
Árskógum 4 Félagsstarfið er með opið í s...