Ekkert lát á El niño

Gervihnattamyndir NASA sem sýna El niño í Kyrrahafinu í kringum …
Gervihnattamyndir NASA sem sýna El niño í Kyrrahafinu í kringum miðbaug árin 1997 og 2015.

Fátt bendir til þess að draga fari úr styrk veðurfyrirbrigðisins El niño en það hefur þegar haft mikil áhrif á veðurfar í heiminum. Vísindamenn sjá meðal annars merki um að fyrirbrigðið hafi enn ekki náð hámarki. Bandaríkjamenn gætu brátt byrjað að finna fyrir áhrifum El niño af fullum krafti.

El niño er náttúrulegur breytileiki í staðvindum yfir Kyrrahafi sem veikjast og breyta jafnvel um átt. Það veldur mikilli hlýnun í efri lögum hafsins í hitabeltinu miðju og austanverðu yfir Kyrrahafi. Hefur það áhrif á veðurfar um alla jörðina.

Fyrirbærið hefur meðal annars átt þátt í því að dregið hefur verulega úr úrkomu í Suðaustur-Asíu sem hefur stuðlað að gríðarlegum skógareldum í Indónesíu á þessu ári. Eins tengja vísindamenn El niño við þurrka á Indlandi og Suður-Afríku, flóð í Suður-Ameríku, fordæmalausa fellibyljatíð í austanverðu Kyrrahafi og skemmdir á kóralrifjum.

Um allan heim hefur hrísgrjóna-, hveiti- og kaffiuppskerur brugðist svo eitthvað sé nefnt vegna þurrka og flóða sem hefur keyrt upp verð á þeim vörum.

Ekki varanlegt svar við þurrkum Kaliforníu

Búist er við því að El niño muni veita Kaliforníuríki og fleiri ríkjum í vestanverðum Bandaríkjunum langþráða úrkomu en þurrkur hefur ríkt þar undanfarin ár. Vatnsból hafa nær tæmst þar og grunnvatnsstaðan hefur lækkað gríðarlega.

Ólíklegt er hins vegar að El niño verði langtímalausn á þurrknum í Kaliforníu. Þessir veðurviðburðir eru fremur fátíðir og sjá Kaliforníu aðeins fyrir hluta að vatni sínu. Þar að auki gæti La niña fylgt í kjölfarið þegar El niño líður undir lok, jafnvel í sumar.

La niña er í raun andstæða El niño en þá eru staðvindar öflugri en vanalega. Áhrif þess valda því að yfirleitt verður minni úrkoma meðfram strandlengjum Norður- og Suður-Ameríku, um miðjan og austanverðan miðbaug í Kyrrahafinu og í Vestur-Kyrrahafi.

Frétt NASA af þróun El niño

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert