„Mikilvægasta“ fjarreikistjarnan

Teikning listamanns af stjörnunni Gliese 1132 rísa upp yfir sjóndeildarhring …
Teikning listamanns af stjörnunni Gliese 1132 rísa upp yfir sjóndeildarhring fjarreikistjörnunnar GJ 1132b. mynd/Dana Berry/MIT

Reikistjarna sem fannst nýlega á braut um tiltölulega nálæga stjörnu er sögð mögulega mikilvægasta fjarreikistjarna sem fundist hefur fram að þessu. Henni svipar meira til jarðarinnar en aðrar reikistjörnur sem fundist hafa þó að hún sé líklega líkari Venusi. Möguleikarnir á að rannsaka hana eru miklir.

GJ 1132b er í „aðeins“ 39 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Fyrstu rannsóknir á reikistjörnunni benda til þess að hún sé úr bergi eins og jörðin og með lofthjúp. Sumir eiginleikar hennar gera reikistjörnuna að jarðneskustu veröldinni sem fundust hefur fram að þessu á braut um aðrar stjörnur.

Þannig er GJ 1132b aðeins 20% stærri en jörðin og 60% massameiri. Flestar aðrar fjarreikistjörnur sem menn hafa fundið eru umtalsvert stærri en jörðin. Þyngdaraflið er um fimmtungi meira en á jörðinni. Þá er reikistjarnan mun nær jörðinni en flestar aðrar fjarreikistjörnur sem eiga eitthvað sameiginlegt með henni. Þær eru oft í hundruð eða þúsunda ljósára fjarlægð.

Árið aðeins rúmur einn og hálfur jarðardagur

Þar með eru þó beinu líkindin við jörðina upptalin. Að líkindum er meðalhitinn á reikistjörnunni í kringum 227°C sem gerir hana mun líkara bakaraofninum sem Venus er. GJ 1132b er enda á sporbraut sem gengur nær stjörnunni Gliese 1132 en Merkúríus gengur um sólina. Árið á fjarreikistjörnunni er þannig aðeins 1,6 jarðardagar. Reikistjarnan snýr alltaf sömu hliðinni að móðurstjörnunni.

Mikilvægi uppgötvunar GJ 1132b stafar hins vegar ekki síður af því hversu vel hún liggur við rannsóknum frá jörðinni. Vísindamenn rannsaka fjarreikistjörnur með því að leita að smávægilegum breytingum á birtustigi fjarlægra sólstjarna þegar reikistjörnur ganga fyrir þær séð frá jörðinni. Hraður umferðartími GJ 1132b móðurstjörnu sína þýðir að mörg tækifæri gefast til að rannsaka hana.

Vandinn við að rannsaka fjarreikistjörnur felst meðal annars í því að birta þeirra, sem hægt er að nota til að greina efnasamsetningu, er margfalt minni en birtan sem stafar frá stjörnunum sem þær ganga um. Þeim er bókstaflega drekkt í birtu móðurstjarnanna.

Gliese 1132 er hins vegar fremur dimm stjarna sem hjálpar aftur athugunum á fjarreikistjörnum við hana. Hún er aðeins um fimmtungur af stærð sólarinnar okkar og gefur frá sér 1,5% af ljósi hennar. Því drukknar reikistjarnan ekki alveg í birtu stjörnunnar.

Skotmark fyrir sjónaukana

Af þessum ástæðum segir stjarneðlisfræðingurinn Drake Deming að GJ 1132b sé „að öllum líkindum mikilvægasta reikistjarna sem nokkru sinni hefur fundist utan sólkerfisins“.

„Ef við komumst að raun um að þessi fremur heita reikistjarna hafi tekist að halda í lofthjúp sinn í þá milljarða ára sem hún hefur verið til þá boðar það gott fyrir langtímamarkmið um að rannsaka svalari reikistjörnur sem gætu hýst líf. Við erum loksins með skotmark til að beina sjónaukum okkar að og við getum grafist dýpra fyrir um hvernig bergfjarreikistjörnur virka og hvað lætur þær ganga“, segir Zachory Berta-Thompson, rannsóknarnemi við Kavli-stjarneðlis- og geimrannsóknastofnun MIT-háskóla.

Hann vonast til þess að James Webb-geimsjónaukinn sem skotið verður á loft eftir tvö ár verði notaður til þess að koma auga á litinn á lofthjúpi GJ 1132b, greina efnasamsetningu hans og jafnvel vindafar í lofthjúpnum.

Frétt á vef MIT-háskóla

Frétt á Space.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert