Google kvað Rússland Mordor

Mordor eins og það birtist í kvikmyndaþríleik Peter Jackson.
Mordor eins og það birtist í kvikmyndaþríleik Peter Jackson. Ljósmynd/Wikipedia

Google hefur lagfært villu sem gerði það að verkum að þýðingartól tæknirisans þýddi orðið „Rússland“, sem „Mordor“, en eins og allir unnendur Hringadróttinsögu vita er um að ræða heimkynni myrkrahöfðingjans Sauron.

Þetta voru ekki einu mistökin sem þurfti að lagfæra því „Rússar“ var þýtt „hernámsmenn“ og nafn rússneska utanríkisráðherrans Sergei Lavrov var snarað í „dapur lítill hestur“.

Mistökin, sem Google vill meina að séu tilkomin vegna kerfisvillu, komu upp þegar notendur freistuðu þess að þýða úr úkraínsku og yfir á rússnesku en skammt er síðan Rússland innlimaði Krímskaga, sem tilheyrir Úkraínu.

Í tilkynningu frá tæknirisanum sagði að þýðingatólið Google Translate virkaði án aðkomu mennskra þýðenda, m.a. með því að leita að mynstrum í milljónum skjala.

„Sjálfvirk þýðing er mjög erfið viðfangs, þar sem merking orða velta á því í hvaða samhengi þau eru notuð. Þetta þýðir að það eru ekki allar þýðingar fullkomnar og að stundum gerast mistök og orð eru þýdd ranglega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert