Níunda reikistjarnan fundin?

Teikning sem gerð var af mögulegu útliti nýju reikistjörnunnar fyrir …
Teikning sem gerð var af mögulegu útliti nýju reikistjörnunnar fyrir skýrslu fræðimannanna um fundinn. Mynd/Caltech University

Stjörnufræðingar við Caltech háskólann í Kaliforníu hafa fundið sterk sönnunargögn fyrir tilvist stórrar en óséðrar reikistjörnu langt utan brautar Neptúnusar og Plútós. Sönnunargögn fræðimanna byggja meðal annars á rannsóknum og útreikningum á sporbrautum svokallaðra útstirna, en það eru litlir íshnettir í Kuipersbeltinu í sólkerfi okkar. Frá þessu er sagt á Stjörnufræðivefnum.

Nýja reikistjarnan óséða er talin vera um 10 sinnum efnismeiri en Jörðin, en að hún komist aldrei nær sólu en sem nemur 200 faldri fjarlægð milli Jarðar og sólu. Sé það rétt tekur það reikistjörnuna 10-20 þúsund ár að ganga umhverfis sólina, en það tekur jörðina eitt ár að fara einn hring.

Aðeins Úranus og Neptúnus hafa „fundist“ meðan hægt var að sjá aðrar reikistjörnur á himninum. Úranus fannst árið 1781 og Neptúnus 1846. Undanfarin ár hafa mörg útstirni fundist utan brautar Neptúnusar. Þá hafa einnig aðrir hnettir fundist utarlega í sólkerfinu okkar, en þeir eru enn fjarlægari og er tilvist þeirra enn ráðgáta. Gæti þessi nýfundna reikistjarna haft áhrif á sporbrautir þessara hnatta.

Lesa má nánar um fundinn á Stjörnufræðivefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert