Fyrsti farmur risaeldflaugar ákveðinn

Teikning af SLS-eldflauginni þjóta á loft. Eldflaugin verður tæpir hundrað …
Teikning af SLS-eldflauginni þjóta á loft. Eldflaugin verður tæpir hundrað metrar á hæð. NASA

Örgervihnettir verða fyrsti farmur öflugustu eldflaugar sem bandaríska geimvísindastofnunin hefur þróað sem á að skjóta á loft í fyrsta skipti eftir tvö ár. Þeim verður meðal annars ætlað að gera athuganir á tunglinu, geimgeislum og jafnvel að fljúga til móts við smástirni.

Nýju eldflaugarnar bera nafnið Space Launch System (SLS) og stendur til að skjóta þeirri fyrstu á loft í tilraunaskyni árið 2018. NASA tilkynnti í gær að farmur fyrstu eldflaugarinnar verði þrettán örgervitungl (e. cubesats).

Slíkum gervitunglum hefur áður verið komið á braut um jörðu með eldflaugum og frá Alþjóðlegu geimstöðinni en þau hafa aldrei verið send eins langt frá jörðinni og nú stendur til. Gervitunglunum verður sleppt þegar Orion-geimfarið sem flytur þau kemst á braut handan tunglsins.

Space Launch System Carries CubeSat Explorers During First Mis...

Our Space Launch System rocket and Orion spacecraft will not only take people on the most distant journeys to date, but will also allow science and technology missions to hitchhike rides to space. Watch how SLS rocket will transport CubeSats during its first mission in 2018: http://go.nasa.gov/1PwViEx

Posted by NASA - National Aeronautics and Space Administration on Tuesday, 2 February 2016

SLS-eldflaugin er hönnuð til að geta á endanum flutt menn út í geiminn með Orion-geimfarinu sem NASA vinnur einnig að þessi misserin. Tilraunir á hinum ýmsu hlutum hennar hafa staðið yfir undanfarið. Þegar hún verður fullbúin verður hún 98,5 metra há. Til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn 74,5 metra hár. Þó að eldflaugin sé nokkru lægri en Saturn V-eldflaugin sem skaut Apollo-geimferjunum á leið til tunglsins hefur hún nærri því fjórðungi meira þrýstiafl.

Fjögur gervitunglanna sem skotið verður á loft í tilraunafluginu eiga að gera rannsóknir á tunglinu, þar á meðal að leita að merkjum um ís og vænlega staði til að vinna auðlindir. Það fimmta á að gera geimveðurathuganir sem felast í því að rannsaka straum agna og segulsvið og það sjötta mun kanna áhrif geimgeisla á gersveppi til að sjá hvernig lífverur bregðast við langvarandi dvöl í geimnum.

Einn eitt gervitunglanna á að halda til móts við smástirnið 1991VG knúið sólarsegli. Seglið verður 86 fermetrar að flatarmáli en aðeins á þykkt við mannshár. Það á að beisla kraft sólarvindsins til að knýja gervihnöttinn áfram.

Frétt Space.com af fyrsta farmi SLS-eldflaugarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert