Lífseig flökkusaga afsönnuð

Mammútakálfurinn Lyuba, sem er til sýnis á Field Museum of …
Mammútakálfurinn Lyuba, sem er til sýnis á Field Museum of Natural History í Chicago. Wikipedia/Matt Howry

Mammútakjöt var ekki á boðstólnum þegar The Explorers Club efndi til veislu í janúar 1951, þrátt fyrir sögusagnir þess efnis. Sjaldgæfar og útdauðar dýrategundir voru sagðar á matseðilinum, en gamlar kjötleifar hafa leitt hið sanna í ljós.

„Ég er viss um að fólk langaði að trúa þessu. Það hafði ekki hugmynd um að mörgum árum seinna myndi doktorsnemi leysa ráðgátuna með erfðaprófunum,“ segir Jessica Glass, nemi við Yale og einn höfunda rannsóknar sem birtist í PLOS ONE.

Flökkusagan um veisluna miklu snérist sumsé um að á boðstólnum hefði verið 250.000 ára gamalt mammútakjöt. Hnefastórt kjötstykki var geymt til minningar um viðburðinn og varð hrekkjalómunum að falli en rannsóknir hafa leitt í ljós að um er að ræða ósköp venjulegt skjaldbökukjöt.

Samkvæmt Guardian má rekja sögusagnirnar til frásagnar í Christian Science Monitor sem var á þá leið að á boðstólnum hefði verið ögn af mammút, sem var sagður hafa fundist í „Woolly Cove“ á Akutan-eyju, og fluttur til New York.

Þá á liðsforinginn Wendell Phillips Dodge, sem sá um að auglýsa veisluna, að hafa sent út fréttatilkynningar þar sem sagði að á matseðlinum yrði „fornsögulegt kjöt“.

Kjötstykkið sem rannsakendur prófuðu var upphaflega merkt „Megatherium“, risa-letidýr, en kenningin um að þar færi mammútakjöt var lífseig. Það var Explorers-klúbburinn sjálfur sem fjármagnaði tilraunirnar á sýnishorninu og framkvæmdastjórinn sagðist ánægður með niðurstöðurnar, enda hefði margt breyst á síðastliðnum 65 árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert