Almyrkvinn séður úr geimnum

Skuggi tunglsins norður af Ástralíu.
Skuggi tunglsins norður af Ástralíu. DSCOVR/EPIC

Íbúar í austanverðri Asíu og Ástralíu nutu sólmyrkva á miðvikudaginn, sumir almyrkva en aðrir deildarmyrkva. Gervitunglið DSCOVR náði að fylgjast með myrkvanum frá upphafi til enda frá braut sinni í geimnum, um 1,6 milljón kílómetra frá jörðinni.

Sólmyrkvar verða þegar tunglið gengur beint á milli jarðarinnar og sólarinnar. Þeir sjást frá þeim stöðum þar sem skuggi tunglsins fellur en þar sem hann er tiltölulega lítill sjást sólmyrkvar aðeins frá afmörkuðum svæðum hverju sinni.

Adam Szabo, vísindamaður NASA við DSCOVR-gervitunglið, segir að þetta sé í fyrsta skipti sem sólmyrkvi hafi náðst á mynd eða myndband frá upphafi til enda að sér vitandi.

Myndskeiðið sem fylgir fréttinni hér fyrir neðan var sett saman úr þrettán myndum sem EPIC-myndavélin um borð í gervitunglinu tók af skugga tunglsins færast yfir jörðina, að því er kemur fram á vefsíðu DSCOVR.

DSCOVR er á braut á milli jarðarinnar og sólarinnar og fylgist stanslaust með upplýstu hlið jarðarinnar. Megintilgangur gervitunglsins er að fylgjast með sólvindum til að vísindamenn á jörðu niðri geti gert „geimveðurspár“. Það tekur einnig litmyndir af jörðinni á hverjum degi sem aðgengilegar eru á vefsíðu gervitunglsins.

An EPIC Eclipse

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert