Flugu í gegnum skugga tunglsins

Farþegarnir um borð í flugvélinni gátu séð skugga tunglsins teygja …
Farþegarnir um borð í flugvélinni gátu séð skugga tunglsins teygja sig í átt að þeim og sólina myrkvast. Skjáskot af Youtube

Hópur stjörnufræðinga fékk því framgengt að flugfélagið Alaska Airlines seinkaði flugferð sinni frá Alaska til Havaí til að farþegunum um borð gæfist kostur á því að berja sólmyrkvann í vikunni augum. Flaug vélin því í gegnum skugga tunglsins og áttu sumir farþegarnir erfitt með að hemja sig á meðan.

Fyrir um ári uppgötvaði stjörnufræðingurinn Joe Rao að flugleið Alaska Airlines á milli Anchorage í Alaska og Honolulu á Havaí lægi í gegnum skuggann sem tunglið varpar á jörðina þegar það skyggir á sólina. Hefðbundinn brottfarartími flugvélarinnar var hins vegar of snemma á ferðinni og því setti Rao sig í samband við flugfélagið. Það féllst á að seinka brottförinni til að ná sólmyrkvanum, að því er kemur fram í frétt á vef Alaska Airlines.

Um borð í vélinni á miðvikudag var fjöldi stjörnufræðinga sem fögnuðu ákaft þegar skuggi tunglsins náði flugvélinni í háloftunum og sólin myrkvaðist. Einn þeirra, Mike Kentrianakis frá Bandaríska stjörnufræðifélaginu, festi atburðinn á filmu en átti erfitt með að hemja tilfinningar sínar eins og heyra má á myndbandinu hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert