Bakteríur gætu brotið niður plast

Gríðarlega mikið af plasti fellur til á hverju ári og …
Gríðarlega mikið af plasti fellur til á hverju ári og mengar umhverfið. AFP

Þó að plastefni hafi aðeins verið til í um sjötíu ár á jörðinni hafa sumar bakteríur þegar þróað getu til þess að brjóta þau niður. Þessar bakteríur gætu mögulega verið notaðar í framtíðinni til að brjóta niður plastúrgang en um 311 milljón tonn af plasti eru framleidd í heiminum á hverju ári.

Rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu Science á fimmtudag fjallar um bakteríuna Ideonella sakaiensis sem fannst fyrir utan endurvinnslustöð. Hún virðist hafa þróað með sér ensím sem brjóta niður fjöletýlenefnið PET sem er algengasta fjölliðan sem notuð er við framleiðslu á plasti.

Bakteríur sem éta plast hafa áður verið nefndar til sögunnar sem möguleg lausn á sorpvanda jarðarbúa. Mark Lorch frá Háskólanum í Hull sem tengist rannsókninni ekki segir þó mikilvægan mun á þessari bakteríu og fyrri hugmyndum um niðurbrot plastefni. Fyrri rannsóknir hafi snúist um sveppi sem erfitt er að rækta en í þessu tilfelli sé um bakteríu að ræða sem hægur leikur sé að rækta.

Ekki er þó um neina töfralausn á plastúrgangi að ræða og það er langt í að hægt verði að nýta bakteríuna til að vinna á honum. Bakterían á enn erfitt með að vinna á mjög kristölluðu PET sem er notað í flestum hörðum plastefnum.

„Niðurstöður rannsóknar okkar eru aðeins byrjunin á hagnýtingu. Við verðum að vinna að svo mörgum vandamálum sem þarf að leysa úr fyrir mörg not. Það tekur langan tíma,“ segir Kenji Miyamoto, aðalhöfundur rannsóknarinnar frá Keio-háskóla.

Eitt mögulegt vandamál er að við niðurbrot plastefnisins gætu bakteríurnar gefið frá sér óæskileg efni út í umhverfið sem væru annars bundin í plastinu.

Frétt Washington Post af rannsókninni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert