Leggja af stað í leit að lífi

Teikning af brautarfarinu TGO og lendingarfarinu Schiaparelli nálgast Mars.
Teikning af brautarfarinu TGO og lendingarfarinu Schiaparelli nálgast Mars. AFP

ExoMars-leiðangur evrópsku geimstofnunarinnar ESA hefst á morgun ef allt gengur að óskum. Brautar- og lendingarförin verða sjö mánuði á leiðinni til nágrannareikistjörnu okkar þar sem þau munu freista þess að leita að merkjum um líf á yfirborði hennar.

Geimskot geimfaranna er áætlað kl. 9:30 að íslenskum tíma í fyrramálið en þeim verður skotið á loft með rússneskri Proton-M-eldflaug frá Baikonor-skotpallinum í Kasakstan. Hægt verður að fylgjast með geimskotinu í beinni útsendingu á netinu.

Leiðangurinn samanstendur af tveimur geimförum. Annars vegar er það Snefilgasbrautarfarið (TGO) sem á að leita að gastegundum eins og metani í þunnum lofthjúpi Mars og hins vegar Schiaparelli-lendingarfarið sem á að lenda í samnefndum gíg.

Risavaxið nef í geimnum

„TGO verður eins og risavaxið nef í geimnum,“ segir Jorge Vago, vísindamaður við ExoMars-leiðangurinn um brautarfarið sem hringsóla mun um mars næstu fimm árin.

Meginþorri metans í lofthjúpi jarðar kemur úr líffræðilegum ferlum. Þefi TGO af metani á Mars gæti það því verið góð vísbending um að líf hafi verið eða sé jafnvel til staðar þar. Mælitæki um borð í geimfarinu mun einnig leita að merkjum um vatn við yfirborðið. Myndavél er einnig um borð sem mun skila myndum í hárri upplausn af reikistjörnunni, þó ekki eins skýrum og HiRise-myndavél Mars Reconnaissance Orbiter sem verið hefur á braut um Mars undanfarin tíu ár.

Lendingarfarið verður skilið frá TGO nokkrum dögum áður en geimförin koma að Mars. Búist er við því að Schiaparelli lendi á yfirborðinu 19. október. Fallhlíf og hreyfill (e. thruster) verður notaður til að lenda farinu mjúklega. Það á meðal annars að gera veðurfars- og loftslagsrannsóknir á yfirborði og skima eftir rafsviði. Líftími þess á aðeins að vera nokkrir dagar.

Saman eiga upplýsingarnar sem farið aflar að gefa vísindamönnum betri hugmynd um hvernig rafsvið og ryk mynda rykstorma á reikistjörnunni. Leiðangursstjórnendurnir ákváðu að lenda farinu vísvitandi á meðan á rykstormatímabili stendur á Mars til að fá hugmynd um hvernig þeir hafa áhrif á geimför og mögulegar mannaðar ferðir í framtíðinni.

Hægt er að lesa nánar um ExoMars-leiðangurinn á Stjörnufræðivefnum.

Frétt Space.com um ExoMars-leiðangurinn

Proton-eldflaugin á skotpallinum í Baikonur í Kasakstan.
Proton-eldflaugin á skotpallinum í Baikonur í Kasakstan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert