Fljótandi efni gat verið á Plútó

Fyrirbæri sem líkist frosinni tjörn norður af Spútniksléttunni á Plútó.
Fyrirbæri sem líkist frosinni tjörn norður af Spútniksléttunni á Plútó. NASA/JHUAPL/SwRI

Öfgakennd árstíðaskipti á dvergreikistjörnunni Plútó gætu þýtt að þar hafi verið lofthjúpur sem óx og rýrnaði. Þegar lofthjúpurinn var þykkari er mögulegt að stöðuvötn úr köfnunarefni hafi verið að finna á yfirborðinu, að sögn aðalvísindamanns New Horizons-leiðangursins.

Möndulhalli jarðar veldur árstíðaskiptum og sömu sögu er að segja á Plútó. Hallinn á möndli Plútó er hins vegar margfalt meiri en jarðar, 120° á móti 23°jarðar, en auk þess tekur það dvergreikistjörnuna 248 jarðár að fara einn hring um sólina. Það þýðir að árstíðaskiptin þar eru mun öfgakenndari en á jörðinni.

Alan Stern, aðalvísindamaður New Horizons-geimfarsins sem flaug fram hjá Plútó síðasta sumar, segir að þessi breytileiki afstöðu Plútós til sólarinnar þýði að sólarorkan sem berst til yfirborðsins sé mismikil. Það hafi aftur áhrif á loftþrýsting. Hann hafi getað flökt á milljónum og jafnvel milljörðum ára.

Loftþrýstingur á Plútó er nú um einn hundrað þúsundasti hluti af loftþrýstingi við sjávarmál jarðar. Áður fyrr gæti hann hins vegar hafa verið allt að 10.000 meiri en hann er nú. Á sumum stöðum hafi hann getað verið allt frá fjórum til fjörutíu sinnum meiri en á Mars. Við slíkan þrýsting hafi köfnunarefni verið til á fljótandi formi á yfirborðinu. Það gæti útskýrt sumar þær myndanir sem New Horizons hefur séð á Plútó. Ein þessara myndana er eitthvað sem líkist lítilli frosinni tjörn á Tombaugh-svæðinu á Plútó.

„Þetta breytir virkilega sýn okkar á þessa litlu reikistjörnu,“ sagði Stern 

Frétt Space.com 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert