Hafið gæti hækkað um metra

Ísinn á Suðurskautslandinu mun bráðna hratt verði ekki dregið verulega …
Ísinn á Suðurskautslandinu mun bráðna hratt verði ekki dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. mbl.is/RAX

Bráðnandi ís á Suðurskautslandinu gæti hækkað  yfirborð sjávar um allt að metra fyrir árið 2100 verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Er þetta tvöfalt meiri hækkun sjávarmáls en fyrri spár hafa gert ráð fyrir, að því er kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem birtar voru í dag.

„Ég vona svo sannarlega að við höfum rangt fyrir okkur,“ sagði Robert DeConto, aðalhöfundur skýrslu um rannsóknina og loftslagsvísindamaður hjá Massachusettsháskóla í Bandaríkjunum.

Slík hækkun sjávarmáls myndi leiða til þess að stórborgir á strandsvæðum um allan heim færu undir vatn og hundruð milljóna manna þyrftu að flytja sig ofar í landið. 

Í skýrslunni segir, að afleiðingarnar yrðu enn verri þegar til lengri tíma sé litið og reikna megi með að yfirborð  sjávar muni hækka um allt að  15 metra á næstu 500 árum verði ekkert að  gert og losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast.

Aðrir sérfræðingar, sem AFP ræddi við, segja hins vegar að rannsóknin sé líklega marktæk en grein um rannsóknina birtist í tímaritinu Nature í dag. 

Grein um rannsóknina í Nature

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert