Trudeau útskýrir skammtatölvur

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, er margt til lista lagt. Á dögunum tók hann blaðamann á orðinu og útskýrði muninn á hefðbundnum tölvum og skammtatölvum. Uppskar hann hlátur og lófatak blaðamanna og fremstu eðlisfræðinga Kanada sem voru viðstaddir.

Tölvur sem byggja á eiginleikum skammtakerfa eru taldar geta valdið stóru stökki fram á við í reiknigetu tölva. Skammtafræði er hins vegar torskilin, jafnvel fyrir sérfræðinga á sviðinu. Þegar Trudeau var staddur í Perimeter-stofnuninni í kennilegri eðlisfræði í Ontario-ríki bað blaðamaður hann fyrst í gríni um að útskýra skammtatölvur áður hann hélt áfram með hefðbundnari spurningu.

Trudeau hunsaði hins vegar hefðbundnu spurninguna og tók til við að útskýra muninn á venjulegum tölvum og skammtatölvum í einföldu máli. Forsætisráðherrann er fyrrum kennari og fór því létt með að útskýra hugmyndina.

„Ekki láta mig byrja, annars verðum við hér í allan dag. Treystið mér,“ sagði Trudeau sem er greinilega áhugamaður um skammtatölvur.

Frétt The Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert