EVE Fanfest hefst á morgun

Hátíðin EVE Fanfest og ráðstefna tölvuleikjaframleiðandans CCP hefst á morgun, sumardaginn fyrsta, í Reykjavík og stendur yfir dagana 21.-23. apríl. Fram kemur í fréttatilkynningu að líkt og undanfarin ár fari hátíðin fram í Hörpu, auk þess sem ýmsir viðburðir henni tengdri fara fram á öðrum stöðum borgarinnar.

CCP hyggst meðal annars kynna á hátíðinni nýja leiki sína og verkefni á sviði sýndarveruleika. Bein útsending verður frá hátíðinni sem búist er við að tugþúsundir muni horfa á um heim allan á hverjum degi. Forseti Íslands mun ávarpa hátíðargesti við lokaathöfn hennar.

„Erlendir gestir EVE Fanfest hátíðarinnar eru byrjaðir að streyma til landsins og setja mark sitt á mannlífið í miðbroginni. Alls er búist við um 1.500 erlendum gestum á hátíðina í ár, sem eru að stærstum hluta spilarar tölvuleiksins EVE Online. Einnig sækja viðburðinn ýmsir starfsmenn afþreygingar- og tölvuleikjaiðnaðarins og rúmlega 50 blaðamenn frá mörgum stærstu leikja- og tæknimiðlum heims, ásamt viðskiptaritum og almennum fjölmiðlum á borð við Forbes og Vice. Alls er búist við að um 3.000 manns sæki hátíðina,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert