Veðjar við loftslagsafneitara

Bill Nye bendir meðal annars á rangfærslur í gögnum veðurfræðingsins.
Bill Nye bendir meðal annars á rangfærslur í gögnum veðurfræðingsins. Skjáskot af Youtube

„Vísindagaurinn“ Bill Nye, einn þekktasti vísindamiðlari Bandaríkjanna, hefur skorað á veðurfræðing sem afneitar staðreyndum um loftslagsbreytingar að taka 10.000 dollara veðmáli um að árið í ár verði eitt af tíu heitustu árum frá því mælingar hófust. Annar þekktur afneitari hefur þegar hafnað slíku veðmáli.

Veðurfræðingurinn Joe Bastardi skrifaði grein í blaðið The Patriot Post í fyrra þar sem hann sagði Nye ekki vísindamann heldur leikara. Skoraði hann jafnframt á Nye að sýna fram á að tengsl væri á milli styrks koltvísýrings í lofthjúpi jarðar og hnattrænnar hlýnunar en einnig spá fyrir um þróun hitastigs jarðar næstu fimm árin.

Nye, sem er meðal annars framkvæmdastjóri Reikistjörnufélagsins (e. Planetary Society), hefur nú tekið áskorun veðurfræðingsins og lagt töluvert fé undir. Spáir vísindagaurinn því að árið í ár verði eitt tíu heitastu ára frá því að mælingar hófust og að þessi áratugur verði sá heitasti í sögunni. Leggur hann 20.000 dollara undir.

Benti Nye jafnframt á rangfærslur í gröfum sem Bastardi birti í grein sinni og gaf í skyn að jarðefnaeldsneytisfyrirtæki hafi greitt honum fyrir að tala máli þeirra.

„Ég get ekki annað en hugsað til Upton Sinclair sem sagði: „Það er erfitt að fá mann til þess að trúa einhverju þegar launin hans velta á því að hann trúi því ekki“,“ segir Nye í myndbandi sem hann hefur birt til að svara Bastardi.

Áður hafði Nye lagt sama veðmál fyrir loftslagsafneitarann Marc Morano en hann var ekki tilbúinn að slá til.

Frétt Huffington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert