Gagnaveitu tengdri við glæpi lokað

Konungshöllin á Dam torgi í Amsterdam lýst fánalitum Belgíu.
Konungshöllin á Dam torgi í Amsterdam lýst fánalitum Belgíu. AFP

Hollenska lögreglan handtók í vikunni eiganda gagnaveitunnar Ennetcom og stöðvaði starfsemi fyrirtækisins. Veitan þjónaði um 19.000 notendum en lögregla segir stóran hluta notendanna viðriðna skipulagða glæpastarfsemi.

Eigandinn, hinn 36 ára Danny Manupassa er grunaður um peningaþvætti og ólöglega vopnaeign en gagnaveitan sjálf er það sem laganna verðir voru í raun á höttunum eftir. „Lögregla og saksóknarar telja sig hafa lagt hendur á stærsta dulkóðaða samskiptanet skipulagðrar glæpastarfsemi í Hollandi,“ sögðu saksóknarar á föstudag.

Dulkóðuð samskipti sem slík eru fullkomlega lögleg en sem fyrr segir telur lögregla stóran hóp kúnna Ennetcom hafa nýtt sér þjónustu þess við alvarlega glæpastarfsemi.

Stærsti hluti vefþjóna fyrirtækisins voru í Kanada þó það hafi aðallega starfað í Hollandi með þarlendum viðskiptavinum. Þjónarnir voru haldlagðir með aðstoð lögreglunnar í Toronto. Upplýsingarnar á þeim verða svo nýttar í frekari rannsókn á eiganda Ennetcom og hugsanlega við rannsókn annarra opinna mála. Talsmaður lögreglunnar svaraði þó ekki spurningum um það hvort lögregla hefði tök á að ráða dulkóðun upplýsinganna á þjónunum.

Seldi síma sem aðeins notuðu þjóna fyrirtækisins

Ennetcom seldi, samkvæmt lögreglu, viðskiptavinum sínum farsíma sem breytt hafði verið á þann veg að þeir gátu hvorki hringt hefðbundin símtöl né notað hefðbundna gagnaþjónustu og notuðu þess í stað dulkóðaða þjóna fyrirtækisins til þess að eiga samskipti. Hver sími var seldur á 1.500 evrur (um 210.000 kr.).

Athygli lögreglu fór að berast að fyrirtækinu eftir að símar þess fundust ítrekað í tengslum við rannsóknir á fíkniefnamálum, vélhjólagengjum og morðum milli glæpagengja.

Á vefsíðu fyrirtækisins hefur verið birt tilkynning þar sem það segist „harma þessa atburðarás og ásakanir gagnvart Ennetcom. Það ætti að vera ljóst að Ennetcom stendur fyrir friðhelgi einkalífsins.“

Öllum 19.000 notendum þjónustu þess, innan Hollands sem utan, var tilkynnt á þriðjudag þeir sættu nú rannsókn lögreglu.

Guardian segir frá

Farsímar eru til margra hluta nytsamlegir. Skipulögð glæpastarfsemi er því …
Farsímar eru til margra hluta nytsamlegir. Skipulögð glæpastarfsemi er því miður þeirra á meðal. Mynd úr safni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert