Geimsjónauki kominn til heilsu

Teikning af geimsjónaukanum Kepler.
Teikning af geimsjónaukanum Kepler. mynd/NASA

Leit Kepler-geimsjónaukans að fjarlægum reikistjörnum er komin aftur á fulla ferð eftir bilun sem kom upp í honum fyrr í mánuðinum. Sjónaukinn hefur náð sér að fullu að sögn stjórnenda hans en enn liggur ekki fyrir hvað olli því að hann fór í neyðarham.

Snjóaukinn fór í svonefndan neyðarham 8. apríl en það þýddi að hann gekk hraðar á eldsneytisforða sinn en ella. Því þurftu verkfræðingar við leiðangurinn að hafa hraðar hendur að finna lausn á vandamálinu. Það tókst 10. apríl en þrátt fyrir rannsókn sem hefur staðið yfir samhliða undirbúningi áframhaldandi vísindastarfa er óvíst hvað olli biluninni.

Undirbúningnum lauk fyrir helgi og er Kepler nú tekinn aftur til við að leita að fjarreikistjörnum. Núverandi leiðangri Kepler er skipt upp í níutíu daga tímabil mismunandi verkefna. Núna leitar sjónaukinn að fjarreikistjörnum með svonefndum örþyngdarlinsum. Þyngdarsvið fjarlægra stjarna sveigja og magna upp ljós frá fyrirbærum sem eru fyrir aftan þær. Með því að leita að „linsum“ af þessu tagi geta menn fundið reikistjörnur sem leynast á braut um stjörnuna.

Alls þekkja menn nú um tvö þúsund fjarreikistjörnur en Kepler-geimsjónaukinn hefur fundið um það bil helming þeirra. Sjónaukanum var skotið á loft árið 2009. Til viðbótar við þær 1.041 fjarreikistjörnur sem hann hefur fundið eru 3.600 hugsanlegar plánetur. Leiðangursstjórnendurnir telja að áframhaldandi athuganir muni staðfesta fund um 90% þeirra.

Frétt Space.com

Fyrri fréttir mbl.is:

Kepler aftur í stöðugu ástandi

Kepler nauðstaddur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert