Banna „erótískt“ bananaát

Skjáskot/YouTube

Kínverskar efnisveitur, sem streyma í beinni útsendingu, hafa bannað notendum að mynda sig borða banana með „lokkandi“ hætti. Samkvæmt nýjum reglum þurfa veiturnar að hafa eftirlit með öllu efni sem sent er út til að tryggja að ekkert óviðeigandi fari í loftið.

Samkvæmt New Express Daily eru það ekki bara ávextir sem hafa ratað á bannlista, þar sem nælonsokkar og sokkabönd hafa einnig verið bönnuð í beinum útsendingum.

Um er að ræða nýjasta liðin í aðgerðum yfirvalda til að útrýma „óviðeigandi og erótísku“ efni á internetinu, að því er ríkisfréttastofan CCTV segir frá. Í apríl sl. tilkynnti menningarmálaráðuneyti Kína að ýmsar streymisþjónustur væru til rannsóknar vegna meintrar hýsingar á klámfengnu eða ofbeldisfullu efni.

Síður þar sem streymt er í beinni útsendingu njóta sívaxandi vinsælda í Kína, ekki síst síður þar sem ungar konur skemmta áhorfendum sínum með söng eða spjalli. Áhorfendurnir eru að stærstum hluta karlmenn.

Samkvæmt New Express Daily eru 26% áhorfenda undir 18 ára aldri en 60% þeirra sem búa til efnið eru yngri en 22 ára.

Fjölmargir hafa tjáð skoðun sína á banana-banninu á kínverskum samfélagsmiðlum; sumir hafa áhyggjur af þeim ungu konum sem leggja þetta fyrir sig en aðrir undra sig á því hvernig yfirvöld hyggjast fylgja banninu eftir.

„Þær byrja allar að borða gúrkur, og ef það gengur ekki, sætuhnúða,“ sagði einn netverja.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert