Persónuupplýsingar til sölu

Julian Ranger, forstjóri og stofnandi digi.me.
Julian Ranger, forstjóri og stofnandi digi.me. Mynd/Þorsteinn Ásgrímsson

Fyrir lok þessa árs munu netnotendur hér á landi og erlendis upplifa mikla þróun á svokölluðu persónuneti (e. Internet of me) þar sem völd einstaklinga yfir upplýsingum um sjálfa sig mun taka stakkaskiptum í kjölfar þess að eignarréttur gagnasöfnunar færist frá fyrirtækjum til einstaklinga. Þessi þróun er mjög mikilvæg þar sem nú þegar er farið að bera á því að einstaklingar hætti að deila upplýsingum um sig vegna persónuverndarsjónarmiða og að þeir telji sig ekki fá neitt í staðinn fyrir að deila þeim. Þetta segir Julian Ranger, forstjóri og stofnandi digi.me, sprotafyrirtækis sem vill tengja saman einstaklinga og fyrirtæki í þessari nýju stöðu.

Ranger var einn þeirra sem hélt erindi á ráðstefnu Reiknistofu bankanna um upplýsingatækni og fjármálaþjónustu framtíðarinnar í Hörpu á miðvikudaginn. Í erindi hans fór hann yfir hvað persónunet væri og sagði að fólk hefði líklega heyrt um tækjanetið (e. internet of things) undanfarin ár. Nú væri aftur á móti komið að upplýsingum um fólk sjálft. Ranger ræddi við mbl.is að ráðstefnu lokinni.

Minni vilji að deila gögnum í dag

Sagði hann að í dag væri fólk í minna mæli tilbúið til að deila gögnum um sig, bæði á samfélagsmiðlum og í gegnum ýmis þjónustuforrit eða með stofnunum. Sagði hann að þessi þróun væri slæm fyrir alla, bæði fyrirtæki og einstaklinga. Leiðin úr þessu væri sú að fólk ætti sjálft gögn um sig og hefði rétt til að velja hvar og hvernig þau væru nýtt.

Evrópusambandið hefur samþykkt heildarlög um gagnasöfnun, gagnageymslu og notkun á persónulegum gögnum. Taka lögin gildi árið 2018, en lönd eins og Frakkland hafa þegar innleitt lögin. Ranger segir að með þessum lögum hafi fólk rétt til þess að „gleymast“ eða neita fyrirtækjum um heimild til að geyma um sig gögn.

Tækifæri í hertari löggjöf

Segir hann að þótt mörg fyrirtæki horfi á þetta sem íþyngjandi aðgerð þá séu í þessu tækifæri og að hans mati eina leiðin þannig að gagnasöfnun fari ekki að dragast saman, heldur ýti undir betri þjónustu við neytendur. Þó séu allskonar hindranir í veginum, meðal annars að ef gögn eru dreif víða þá séu þau lítils virði og fyrirtæki sjái sér oft minni hag í að horfa aðeins á eina tegund gagna sem ekki sé hægt að samkeyra með öðrum gögnum.

Segir Ranger að með forritum eins og digi.me sem hann er í forsvari fyrir sé einstaklingum boðið að safna upplýsingum frá fjölda staða og vera þannig í betri samningsstöðu við fyrirtæki sem vilji fá aðgang að upplýsingum. Þannig geti neytendur meðal annars samþykkt eða hafnað því að veita upplýsingar nema fyrirtæki bjóði upp á þjónustu þar sem upplýsingarnar gagnist neytendunum vel.

Afsláttur af tryggingum í staðinn fyrir upplýsingar

Sem dæmi nefnir Ranger að tryggingarfélagið Vitality health bjóði upp á almennar tryggingar og sé með um 6 milljón viðskiptavina. Félagið hafi aftur á móti ákveðið nýlega að bjóða viðskiptavinum sínum sem nota Fitbit eða önnur álíka tæki til að mæla hreyfiiðkun upp á afslátt af tryggingum þar sem það hafi sýnt sig að þeir sem hreyfi sig meira séu ólíklegri til að fá ýmsa sjúkdóma síðar meir. Þá ýti einnig notkun fólks á slíkum tækjum undir hreyfingu. Lokaniðurstaðan að sögn Ranger sé að allir græði. Viðskiptavinir fái lægri iðgjöld og færri fái ákveðna sjúkdóma sem tryggingarfélagið græði á.

Í samtali við mbl.is segir Ranger að möguleikar fyrir persónunetið séu miklir hér á landi. Þannig séu að mestu leyti allir innviðir tilbúnir hér. Undanfarið ár hafi hann einnig rætt við fjölda fyrirtækja og stofnana hér á landi varðandi að nýta svona kerfi hér á landi og segir hann að Íslendingar geti búist við því að það verði að veruleika í lok ársins eða strax á næsta ári. Segir Ranger að hann horfi í upphafi til heilbrigðisupplýsinga, bankaupplýsinga og mögulega fjarskiptafyrirtækja. Segist hann vonast til þess að undir lok ársins verði kominn hópur fyrirtækja og stofnana með í þennan hóp.

En hvað um persónuvernd?

En hvað um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins? Er kerfi sem þetta öruggt og bíður það ekki upp á hættu á að allar persónuupplýsingar um einstaklinga séu á sama stað og því berskjölduð? Þetta eru spurningar sem leita á blaðamann.

Ranger segir er að digi.me gangi einmitt upp á að fólk haldi sjálf upp á upplýsingarnar um sig, hvort sem það sé í síma, tölvu eða skýjaþjónustu að sinni vild. Engar upplýsingar séu hjá fyrirtækinu sjálfu, heldur virki það bara sem milligönguaðili. Þá séu gögnin öll dulkóðuð og þótt ekkert sé 100% öruggt, þá séu þessar upplýsingar mun varðari en flest sem fólk geymi í dag á símunum sínum eða í tölvupósti. Þá geti ríkisstjórnir eða yfirvöld ekki óskað eftir upplýsingum úr kerfinu, þar sem fyrirtækið geymi þau ekki.

Ranger segir að á næstu árum muni persónuupplýsingar og notkun þeirra breyta miklu hvernig samskipti fyrirtækja og einstaklinga virki. Segir hann að með löggjöf Evrópusambandsins og breytingum um eignarétt persónuupplýsinga muni fólk sjálft stjórna persónuvernd sinni og um leið fá greiðari aðgang að þjónustu sem fyrirtæki muni bjóða upp á í skiptum fyrir upplýsingar. „Þetta verða miklar breytingar á næstu 10 árum og okkur getur ekki órað um það enn hvernig þetta mun þróast,“ segir Ranger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert