Setur svartan blett á sólina

Merkúríus byrjaður að feta sig þvert yfir skífu sólarinnar. Myndin …
Merkúríus byrjaður að feta sig þvert yfir skífu sólarinnar. Myndin var tekin frá stjörnuskoðunarhúsinu við Hótel Rangá kl. 11:48. mynd/Sævar Helgi Bragason

Veðurguðirnir hafa verið stjörnuáhugamönnum hliðhollir í dag og vel hefur viðrað til að fylgjast með þvergöngu Merkúríusar fyrir sólu sem náði hámarki sínu rétt fyrir kl. 15 í dag. Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, hefur myndað þvergönguna frá því að hún hófst.

Þessi minnsta og innsta reikistjarna sólkerfisins byrjaði að skríða inn fyrir skífu sólarinnar kl. 11:12 í dag en þvergangan náði hámarki sínu kl. 14:57. Henni lýkur svo kl. 18:42. Ekki gefst eins gott tækifæri til að berja þvergöngu Merkúríusar augum frá Íslandi fyrr en eftir 33 ár.

Vegna þess hversu smá reikistjarnan er þarf að notast við stjörnusjónauka til að koma auga á hana þegar hún gengur fyrir sólina. Algerlega nauðsynlegt er að hann sé búinn sérstakri sólarsíu til þess að forðast augnskaða.

Hægt er að fylgjast með myndum frá gervitunglum NASA af þvergöngunni í því sem næst beinni útsendingu á vefsíðu geimvísindastofnunarinnar.

Þvergangan í hámarki um kl. 15 í dag. Merkúríus er …
Þvergangan í hámarki um kl. 15 í dag. Merkúríus er litli svarti depillinn rétt fyrir neðan miðbaug sólar. Fyrir ofan miðbauginn má sjá sólbletti sem eru mun stærri en reikistjarnan. mynd/Sævar Helgi Bragason

Sævar Helgi hefur verið í stjörnuskoðunarhúsinu við Hótel Rangá frá því í morgun og hefur fylgst með sjónarspilinu frá upphafi í gegnum fjölda stjörnusjónauka sem útbúnir eru sérstökum sólarsíum. Myndirnar sem fylgja fréttinni tók hann í gegnum einn sjónaukann skömmu eftir að þvergangan hófst og þegar hún náði hámarki sínu.

„Það er alltaf jafn fallegt að verða vitni að svona atburðum enda eru þeir tiltölulega sjaldséðir. Það er jafnframt skrýtið að sjá agnarsmáa reikistjörnu fyrir framan risavaxna skífu sólarinnar um leið og maður hugsar til þess að menn beita einmitt þessari aðferð til að leita að öðrum plánetum utan sólkerfis okkar,“ segir hann.

Stjarnvísindamenn nota þvergöngur til þess að leita að reikistjörnum á braut um fjarlægar reikistjörnur. Þeir skima eftir örlitlum breytingum á birtu stjarna þegar reikistjörnur ganga fyrir þær frá jörðu séð. Með þessum hætti hefur mönnum tekist að finna þúsundir fjarreikistjarna.

Merkúríus gengur fyrir sólu um 13-14 sinnum á öld. Síðast gerðist það árið 2006 en þá var þvergangan ekki sjáanleg frá Íslandi. Næst gerist það í nóvember árið 2019 en þá verður hún aðeins hægt að sjá byrjun hennar að hluta héðan. Árið 2032 verður það sama uppi á teningnum. Næst verður hægt að fylgjast með þvergöngu Merkúríusar frá upphafi til enda á Íslandi árið 2049.

Fyrri frétt mbl.is: Merkúríus stekkur fyrir sólu

Góð aðstaða er í stjörnuskoðunarhúsinu við Hótel Rangá.
Góð aðstaða er í stjörnuskoðunarhúsinu við Hótel Rangá. mynd/Sævar Helgi Bragason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert