1.284 reikistjörnur staðfestar

Stjörnusjónaukar nota þvergöngur fjarreikistjarna fyrir móðurstjörnur sínar til að koma …
Stjörnusjónaukar nota þvergöngur fjarreikistjarna fyrir móðurstjörnur sínar til að koma auga á þær. ANU

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, skýrði frá því í fyrradag að hún hefði staðfest 1.284 áður óþekktar fjarreikistjörnur, þ.e. plánetur fyrir utan sólkerfi okkar, með hjálp Kepler-geimsjónaukans. Áður hafði sjónaukinn fundið 984 fjarreikistjörnur.

„Þetta gefur okkur von um að einhvers staðar þarna úti sé að finna aðra Jörð sem gengur um stjörnu á borð við sólina okkar,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Ellen Stofan, yfirvísindamanni NASA.

Kepler-sjónaukinn hefur verið notaður frá árinu 2009 til að skoða um 150.000 stjörnur í leit að vísbendingum um hvort þær séu reikistjörnur. Sjónaukinn fylgist með hárfínum breytingum á birtu stjarnanna sem rekja má til reikistjarna sem ganga fyrir þær, líkt og þegar Merkúr gekk fyrir sólina okkar á mánudaginn var.

AFP

Gætu verið lífvænlegar

NASA sagði að af 1.284 nýstaðfestum fjarreikistjörnum gætu nær 550 þeirra verið úr bergi eins og Jörðin. „Níu af þessum stjörnum eru á lífbelti sólar sinnar, það er að segja í hæfilegri fjarlægð frá henni til að vatn gæti verið í fljótandi formi á yfirborði þeirra,“ hefur AFP eftir geimvísindamönnum NASA.

Alls er nú vitað um 21 fjarreikistjörnu sem er á lífbelti sólar sinnar og gæti verið lífvænleg, að sögn geimvísindastofnunarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert