Að hafa á (geim)klæðum

Tíðablóð flæðir ekki í öfuga átt í geimnum, þó gróusögur …
Tíðablóð flæðir ekki í öfuga átt í geimnum, þó gróusögur segi annað. AFP

Fyrir meira en fimmtíu árum síðan, árið 1963, varð Valentina Tereshkova fyrsta konan til að ferðast út í geim. Síðan þá hafa hátt í 60 aðrar konur fylgt í hennar fótspor.

Þessar konur þurftu að glíma við eitt tiltekið vandamál sem karlarnir voru lausir við: hvað ef þær færu á túr?

„Þegar konur fóru fyrst út í geim var ekki vitað hvaða áhrif það myndi hafa,“ segir kvensjúkdómalæknirinn Varsha Jain í samtali við CNN, en hún er einn höfunda nýlegrar rannsóknar um blæðingar í geimferðum.

Það sem komið hefur í ljós er að þó svo að geimferðir hafi mikil áhrif á flest kerfi líkamans virðist tíðarhringurinn ekkert breytast.

„[Blæðingar] geta átt sér stað náttúrulega í geimnum og ef konurnar vilja velja það, geta þær það.“

Valentina Tereshkova, fyrsta konan til að ferðast út í geim.
Valentina Tereshkova, fyrsta konan til að ferðast út í geim. Ljósmynd/ Wikipedia Commons

Nokkrar úrgangsförgunarstöðvar (lesist: klósett) um borð í alþjóðageimstöðinni geta tekið á móti mennsku blóði, en samkvæmt Jain voru þær þó ekki hannaðar til þess upprunalega. Annað atriði sem hefur áhrif á blæðingar í geimnum er síðan aukin þyngd og útreikningar við að taka vörur á við túrtappa og dömubindi með.

Geimfarar NASA gangast undir persónulegt mat sem sniðið er að þörfum þeirra. Segir talsmaður NASA að rými sé til ýmissa valkosta hvað varðar líkamlegar þarfir og hvernig slík mál séu leyst sé einkamál geimfarans og læknis viðkomandi. Raunar þarf lítið að hafa áhyggjur af praktískum málum tengdum blæðingum þar sem flestar konur nýta sér hormónagetnaðarvarnir til að koma í veg fyrir blæðingar, bæði á meðan undirbúningi og geimferðunum sjálfum stendur.

„Læknar NASA verða varir við það að kvenkyns geimfarar vilja einfaldlega ekki þurfa að eiga við blæðingar.“

Leiðangrar á geimskutlu NASA voru til fáeina vikna. Leiðangrar í Alþjóðageimstöðinni geta hinsvegar varað í allt að sex mánuði og ef farið væri til Mars gæti ferðalagið tekið allt upp í þrjú ár- sem myndi þýða að túrpásan þyrfti að endast mun lengur.

Mae C. Jemison varð fyrsta svarta Bandaríkjakonan til að fara …
Mae C. Jemison varð fyrsta svarta Bandaríkjakonan til að fara út í geim árið 1992. Ljósmynd/ Wikipedia Commons

Hverjar eru áhætturnar?

„Engar rannsóknir hafa verið gerðar á langtíma áhrifum getnaðarvarna í geimnum,“ segir Jain. „Það sem við vitum um langtímanotkun á jörðu niðri er að þú getur notað þær óslitið í áraraðir.

Sönnunargögnin yfir þrjá milljarða kvenna á jörðu niðri eru sterk en þrátt fyrir að Jain og teymi hennar telji áhættu einnig lága í geimnum er erfitt að framkvæma rannsóknir sem styðja við slíkar fullyrðingar, aðallega þar sem svo fáar konur hafa dvalist langdvölum í geimnum.

Að auki má benda á það að í lengri ferðum stækkar pillufarmurinn hvers þyngd og umfang gæti orðið vandamál. Er það mat Jain og félaga að fyrir ferðalag til Mars þyrfti kvenkyns geimfari að ferja með sér 1.100 pillur.

Af þessum sökum beinir Jain athygli að getnaðarvörnum með lengri virkni sem talin eru vera öruggur og áreiðanlegur valkostur. „Það eru engar umbúðir sem þarf að henda og þær eyða óvissu um stöðugleika í geymslu.“

Fyrri ótti um áhættuþætti snerist aðallega að nálægð við geislun í geimnum sem og hættan á blóðtöppum en reynsla úr geimferðum bendir til að slík hætta sé ekki til staðar í raun.

„Enginn hefur orðið fyrir neinu,“ skrifar Virgina Wotrin frá miðstöð geimlæknavísinda við Baylor háskóla sem er einn samhöfunda Jain að rannsókninni. Hún leggur áherslu á að goðsagnir um að tíðablóð flæði í öfuga átt í geimnum, inn en ekki út, hafi löngu verið afsannaðar.

22 kvenkynsgeimfarar ásamt fyrsta kvenkyns framkvæmdastjóra Johnson Space Center árið …
22 kvenkynsgeimfarar ásamt fyrsta kvenkyns framkvæmdastjóra Johnson Space Center árið 2012. Ljósmynd/ NASA

Kosturinn við estrógen

Hormónapillan gæti hinsvegar veitt kvenkyns geimförum ákveðinn ávinning þegar snúið er til jarðarinnar.

„Skortur á þyngdarafli veldur því að geimfarar missa þéttleika í beinum,“ segir Jain. Þetta gerist vegna þess að engin þyngsli eru á beinunum til að styrkja þau. „Og það sem við vitum er að estrógen getur hjálpað þessum þéttleika.“

Estrógen er lykilefni í pillunni og notkun hennar gæti því verið kostur fyrir konur á geimferðum. Hormónið er hinsvegar ekki til staðar í langtíma getnaðarvörnum.

„Estrogen verndar bein, svo þetta gæti komið í veg fyrir missi,“ segir Wotring. Hún hyggst rannsaka þessa staðreynd betur en í millitíðinni mun hún vinna með kvenkyns geimförum við að halda tíðahringnum í blóma, hvar sem þær eru í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert