Geimskutlutankur lýkur sinni hinstu ferð

ET-94 er engin smásmíði. Hann er 47 metrar á hæð …
ET-94 er engin smásmíði. Hann er 47 metrar á hæð og tíu metrar á breidd. Hér er hann kominn til hafnar í Marina del Rey í Kaliforníu. AFP

Síðasti eldsneytistankur NASA sem byggður var til að skjóta geimskutlunni á loft kom til hafnar í Los Angeles í gær eftir fimm vikna sjóferð frá New Orleans. Förin var nokkuð viðburðarík en dráttarbáturinn sem dró tankinn bjargaði fjórum mönnum úr sjávarháska fyrir viku.

Geimskutluáætlun Bandaríkjamanna lauk árið 2011 en ET-94-eldsneytistankurinn sem fluttur var sjóleiðina frá New Orleans til Los Angeles er sá eini sem enn er til sem byggður var til að knýja geimskutlu. Alls voru 136 smíðaðir en eldsneytistankarnir brunnu upp í lofthjúpnum þegar þeir höfðu verið skildir frá geimskutlunni eftir geimskot.

Ferðin hófst 12. apríl og þurfti að sigla með tankinn 8.000 kílómetra leið, þar á meðal í gegnum Panamaskurðinn. Tankurinn verður festur við geimskutluna Endeavour í Vísindamiðstöð Kaliforníu og henni komið fyrir í skotstöðu til sýnis, að því er kemur fram í frétt Space.com.

Tankurinn er engin smásmíði. Hann er um 47 metra hár og tíu metra breiður. Búist er við því að fjöldi áhorfenda muni fylgjast með því þegar tankurinn verður dreginn á áfangastað eftir sérútbúnu spori nú um helgina.

Á fimmtudag tók dráttarbáturinn Shannon Dann sem dró tankinn þátt í björgunaraðgerðum á sjó undan ströndum Neðri-Kaliforníu. Áhöfn hans bjargaði þremur Bandaríkjamönnum og einum Mexíkóa úr björgunarbát eftir að fiskiskip þeirra byrjaði að sökkva.

„Einhver sagði mér einu sinni að ET-94 hafi bjargað geimskutluáætluninni, núna er hann að bjarga mannslífum,“ segir Dennis Jenkins, verkefnastjóri hjá vísindamiðstöðinni, við L.A. Times.

Eldsneytistankurinn verður fluttur í Vísindamiðstöð Kaliforníu nú um helgina þar …
Eldsneytistankurinn verður fluttur í Vísindamiðstöð Kaliforníu nú um helgina þar sem hann verður tengdur við geimskutluna Endeavour. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert