Víðáttumikil íshella óstöðug

Ísbrjótur á siglingu utan við Totten-jökulinn á Suðurskautslandinu.
Ísbrjótur á siglingu utan við Totten-jökulinn á Suðurskautslandinu. AFP

Áhyggjur vísindamanna af bráðnun íss á Suðurskautslandinu hefur fram að þessu fyrst og fremst beinst að vesturhluta álfunnar. Ný rannsókn staðfestir hins vegar þau gífurlegu áhrif sem bráðnun eystri hluta íshellunnar hefði á jörðina til lengri tíma litið. Íshellan er sögð óstöðug í grundvallaratriðum.

Totten-jöklinum hefur verið lýst sem nokkurs konar tappa sem heldur aftur af gífurlega víðáttumikilli íshellunni sem þekur austurhluta Suðurskautslandsins. Láti hann undan síga vegna þeirrar hlýnunar sem menn valda nú á jörðinni gæti yfirborð sjávar hækkað um allt að fjóra metra metra þegar íshellan bráðnar og brotnar út í sjó. Hún þekur um 570.000 ferkílómetra svæði og er stærra en Kalifornía.

Rannsóknin sem birtist í tímaritinu Nature sýnir að Totten-jökull og ísakerfið sem hann tilheyrir hefur hopað oft í gegnum jarðsöguna og þar sé að finna nokkur lykilsvæði sem sem vísindamennirnir segja að séu í grundvallaratriðum óstöðug, að því er kemur fram í frétt Washington Post.

Hefði meiriháttar áhrif á yfirborðshæð sjávar

Hlýnandi sjór bræðir nú jöklana á Suðurskautinu neðan frá og er Totten-jökull að þynnast hratt. Á sumum svæðum hefur hann hopað um allt að þrjá kílómetra á tímabilinu frá 1996 til 2013. Aðrar rannsóknir hafa bent til þess að tapi jökullinn 4,2% af þeim ís sem eftir er þá sé getu hans til að halda aftur af íshellunni á meginlandinu teflt í tvísýnu.

Vísindamennirnir kortlögðu botn jökulsins og landið sem hann liggur á sem gefur þeim betri hugmynd um hvað gæti gerst eftir því sem hann hopar undan hlýnandi loftslagi. Niðurstaðan er að þó að jökullinn sé tiltölulega stöðugur eins og er þá gæti hann skyndilega farið af stað og runnið ofan í djúpar neðansjávardældir, hopi hann ákveðið mikið. Það gæti hækkað yfirborð sjávar um metra í fyrstu en síðan mögulega mun meira.

Þetta telja vísindamennirnir að hafi gerst nokkrum sinnum frá því að íshellan á Suðurskautslandinu myndaðist fyrir um þrjátíu milljón árum. Hop af þessu tagi gæti hafa átt sér staða á miðju plíósentímabilinu fyrir um þremur milljónum ára. Þá er talið að yfirborð sjávar hafi verið tíu metrum hærra eða meira en það er nú.

„Þessi grein leggur fram traust sönnunargögn fyrir því að hratt hop hefur átt sér stað hér í fortíðinni og í raun í gegnum sögu íshellunnar. Þess vegna getum við sagt að það sé líklegt að það endurtaki sig í framtíðinni og að það verða meiriháttar áhrif á yfirborð sjávar ef það gerist,“ segir Jamin Greenbaum frá Háskólanum í Texas sem er einn höfunda greinarinnar.

Líkön vísindamannanna benda til þess að ofsafengnustu breytingarnar sem gætu hlotist af bráðnun á austurhluta Suðurskautslandsins tækju þúsundir ára og hlýnun jarðar þyrfti að vera mun meiri en þær 2°C sem ríki heims stefna að því að takmarka hana við. Þau líkön eru hins vegar varfærin og nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að hop Totten gæti átt sér stað mun hraðar. Menn gætu því þegar hafa hrundið af stað atburðarás sem hefur algerlega umbreytt þessum stærsta ísforða jarðarinnar í fortíðinni.

Umfjöllun Washington Post um rannsóknina

Fyrri frétt mbl.is: Tappinn að losna úr Suðurskautslandinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert