Indverjar prófa smávaxna geimskutlu

Teikning af endurnýtanlegu geimskutlu Indverja.
Teikning af endurnýtanlegu geimskutlu Indverja. ljósmynd/ISRO

Geimferðastofnun Indlands (ISRO) skaut smávaxinni geimferju á loft í tilraunaskyni í fyrsta skipti í morgun. Skutlan er á stærð við smárútu og lenti í Bengalflóa eftir að hafa náð mest um 70 kílómetra hæð. Markmiðið er að smíða endurnýtanlega geimferju á hagkvæman hátt.

Tilraunin er fyrsta skrefið í þróun stærri endurnýtanlegrar geimskutlu sem á að gera geimferðir auðveldari og hagkvæmari. Henni var aðeins ætlað að sýna fram á tæknilega getu skutlunnar, meðal annars til að fljúga í gegnum hljóðmúrinn. Því var hún ekki búin til að lenda á landi. Indverjar eru þekktir fyrir ráðdeild í geimferðaáætlun sinni. Þróunarkostnaður smágeimferjunnar er sagður hafa numið aðeins um fjórtán milljónum dollara.

Indverska geimskutlan, sem ber nafnið Reusable Launch Vehicle, er um sjö metrar að lengd og vegur um 1,75 tonn en vísindamenn stofnunarinnar vonast til þess að smíða tilraunaskutlur sem verða allt að sex sinnum stærri næsta áratuginn. Skutlurnar eiga að geta svifið aftur til jarðar eftir að þeim hefur verið skotið út í geim.

Þær blikna hins vegar í samanburði við bandarísku geimskutlurnar sem flugu allt til ársins 2011. Þær voru um 56 metrar að lengd og vænghaf þeirra var 23 metrar.

Geimferðafyrirtæki vinna nú af kappi að því að draga úr kostnaði við geimskot. Dýrasti hluti þeirra er sjálft geimskotið og eldflaugarnar sem notaðar eru til að skjóta geimferjum út í geiminn. SpaceX og Blue Origin hafa þegar náð eftirtektarverðum árangri í að lenda eldflaugaþrepum eftir að þeim hefur verið skotið á loft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert