Betrumbætir ytra sólkerfið

Ganýmedes er stærsta tungl Júpíters. Björn vann mósaíkmyndina úr myndum …
Ganýmedes er stærsta tungl Júpíters. Björn vann mósaíkmyndina úr myndum Voyager 1 frá árinu 1979. ljósmynd/NASA/Björn Jónsson

Íslenski tölvunarfræðingurinn Björn Jónsson hefur getið sér gott orð fyrir að betrumbæta myndir Voyager-geimfaranna af ytra sólkerfinu með myndvinnslu sinni. Nú hefur hann unnið mósaíkmynd af Ganýmedesi, stærsta Galíleótunglinu, sem sýnir hnöttinn í nýju og skarpara ljósi.

Voyager-leiðangrarnir færðu mannkyninu ótrúlegar myndir af ytra sólkerfinu á 8. og 9. áratug síðustu aldar, þar á meðal þær fyrstu af ystu reikistjörnunum, Úranusi og Neptúnusi. Á þeim áratugum sem síðan hafa liðið hafa miklar framfarir orðið í myndvinnslu.

Þetta hefur Björn nýtt sér og unnið einhverjar skörpustu myndir sem til eru af sumum hnattanna sem Voyager-könnunarförin mynduðu á sínum tíma. Þannig hefur hann gert líklega skarpasta kort sem til er af yfirborði Evrópu, tungls Júpíters, stóra rauða blettinum á gasrisanum sjálfum og reikistjörnunni Úranusi eins og mbl.is hefur áður sagt frá. Þetta gerir hann í frítíma sínum og hefur hann meðal annars skrifað eigin forrit til þess að taka tillit til sérhæfðra hluta eins og möndulsnúnings hnattanna.

Nýjasta verkefni Björns er tunglið Ganýmedes sem er stærsta tungl Júpíters og sólkerfisins. Hann vann mósaíkmynd upp úr 45 myndum frá Voyager 1 sem teknar voru við framhjáflug 5. mars árið 1979 en hún samanstendur af sautján römmum.

Í færslu á vefsíðunni Unmanned Spaceflight skrifar Björn að mósaíkmyndin sé sú stærsta sem hann hafi séð af öllum hnettinum. Myndirnar sem fóru í mósaíkina voru teknar á tveggja klukkustunda tímabili úr 180.000 til 305.000 kílómetra fjarlægð frá Ganýmedesi. Mósaíkmyndin er því sem næst í „raunlit“.

Það gekk þó ekki vandræðalaust að setja myndina saman. Sumar upprunalegu myndanna voru hreyfðar vegna þess að gríðarleg geislun í segulhvolfi Júpíters truflaði tölvur og klukku Voyager. Erfitt var að gera mósaíkmyndina af öllum hnettinum án hreyfðu myndanna. Með aðstoð góðra manna tókst Birni hins vegar að leiðrétta bjaganirnar í myndunum.

Í samtali við mbl.is segist Björn nú vinna að því að koma saman stórri litmynd af Kallistó, næststærsta tungli Júpíters. Það muni þó taka sinn tíma af sömu ástæðu og vinnsla Ganýmedesarmyndarinnar tók langan tíma. Sú mynd verði vonandi hliðstæð myndinni af Ganýmedesi.

Fyrri fréttir mbl.is:

Gerði Úranus meira spennandi

Íslendingur kortlagði Evrópu

Grein á Stjörnufræðivefnum um Voyager-leiðangrana

Grein á Stjörnufræðivefnum um Ganýmedes og Galíleótunglin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert