Risasvartholin hlupu yfir skref

Teikning sem á að sýna hugmyndir um að risasvarthol hafi …
Teikning sem á að sýna hugmyndir um að risasvarthol hafi myndast beint úr gasskýi á upphafsárum alheimsins. ljósmynd/NASA/CXC/STScI

Stjarneðlisfræðingum hefur reynst erfitt að skýra hvernig risasvarthol náðu að verða svo stór á svo skömmum tíma eftir Miklahvell. Hópur vísindamanna heldur því nú fram að svonefnd svartholsfræ hafi myndast beint úr risavöxnum gasskýjum og sleppt öllum millistigum sem hefðbundin svarthol ganga í gegnum.

Talið er að tröllaukin risasvarthol sé að finna í miðju nærri allra vetrarbrauta alheimsins. Sum þeirra hafa massa sem er á við milljónir og jafnvel milljarða sóla og mynduðust sum hver innan við milljarði ára eftir Miklahvell.

Þetta hefur valdið vísindamönnum heilabrotum. Kenningar hafa verið uppi um að þessi fræ risasvarthola hafi myndast þegar þau sönkuðu að sér gasi úr nágrenni sínu og við samruna svarthola. Slíkt ferli hefði hins vegar átt að taka mun lengri tíma en raun ber vitni.

Myndast stór og vaxa á eðlilegum hraða

Með því að nota gögn frá Chandra-röntgensjónaukanum og Hubble- og Spitzer-geimsjónaukunum hefur hópur vísindamanna lagt fram einar bestu vísbendingar um þessi svartholafræ. Grein um kenningar þeirra mun birtast í mánaðarlegu riti Konunglega stjörnufræðifélagsins á Bretlandi.

Hópurinn notaði tölvulíkan af svartholtafræjum ásamt nýrri leið til að velja líklega kosti af myndum Chandra, Hubble og Spitzer. Hann fann tvö líkleg svartholafræ sem pössuðu við kenningar hans. Talið er að þau hafi myndast á þessum fyrsta milljarði ára alheimsins.

Í stað þess að svartholin verði til eftir myndun og tortímingu massamikilla sólstjarna leggja vísindamennirnir til að þau hafi myndast beint þegar gasský féllu saman á bernskuárum alheimsins.

„Verk okkar bendir til þess að við séum að nálgast svar þar sem svartholin myndast stór og vaxa á eðlilegum hraða frekar en að þau byrji smá og vaxi mjög hratt,“ segir Andrea Ferrara frá Scuola Normale Superiore (SNS) í Písa á Ítalíu. 

Fabio Papucci, sömuleiðis frá SNS, segir kenningu þeirra langt því frá þá einu. Þeir telji hins vegar að líkan þeirra nái að líkja eftir niðurstöðum athugana án óeðlilegra áætlaðra forsendna.

Frétt á vef NASA um kenningar vísindamannanna 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert