Vilja rækta líffæri inni í svínum

Svín eru talin heppilegar útungunarvélar fyrir líffæri í menn. Grísirnir …
Svín eru talin heppilegar útungunarvélar fyrir líffæri í menn. Grísirnir á myndinni eru 100% svín. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Svínabú gætu breyst í líffæraverksmiðjur í framtíðinni ef tilraunir sem vísindamenn í Bandaríkjunum vinna nú að skila árangri. Þeir hafa blandað saman erfðaefni manna og svína og vonast þannig til þess að geta ræktað líffæri í menn inni í svínum til að nota í ígræðslur.

Hópur frá Kaliforníuháskóla hefur komið stofnfrumu úr mönnum fyrir í svínafóstri og búið til blendingsfóstur. Fram að þessu hefur blendingunum verið leyft að vaxa í gylltum í 28 daga áður en fóstrunum hefur verið eytt og vefir þeirra rannsakaðir.

Tilgangur tilraunanna er að geta einn daginn búið til ný og heilbrigð líffæri fyrir menn og leysa þannig úr þeim skorti sem er á líffærum til líffæragjafar í heiminum.

Á að líta út og hegða sér eins og svín

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að sköpun blendingsfóstranna fer fram í tveimur stigum. Fyrst fjarlægja vísindamennirnir kjarnsýru úr svínafóstri sem ætti að gera því kleift að mynda briskirtil. Við þetta verður til nokkurs konar hola í erfðaefninu en í henni koma menn fyrir svonefndum fjölhæfum stofnfrumum. Þær eiga að geta orðið að hvaða vef sem er í líkamanum.

Með þessum hætti vonast vísindamennirnir til þess að í blendingsfóstrinu vaxi mennskur briskirtill. Svínið muni að öðru leyti líta út og hegða sér eins og svín.

Haft er eftir Walter Low, prófessor við taugaskurðlækningadeild Háskólans í Minnesota, sem vinnur að sambærilegum tilraunum, að svín séu sérstaklega heppilegar „útungunarvélar“ fyrir líffæri úr mönnum. Mögulegt verði hægt að nota þau til að rækta fjölda líffæra eins og hjörtu, lifrar, nýru, lungu og hornhimnur.

Önnur teymi vísindamanna hafa búið til blendingsfóstur manna og svína en slíkum fóstrum hefur aldrei verið leyft að fæðast. Í fyrri tilraunum hópsins í Bandaríkjunum þar sem stofnfrumum manna var skeytt við svínafóstur án þess að áður væri búið til sérstakt rými í þeim fundust mennskar frumur í fóstrinu sem óx en þær áttu erfitt uppdráttar gegn svínafrumunum.

Vísindamaður vinnur með stofnfrumur. Myndin er úr safni og tengist …
Vísindamaður vinnur með stofnfrumur. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. AFP

Siðferðislegar spurningar

Rannsóknir þessar eru ekki óumdeildar. Bandaríska heilbrigðisstofnunin, helsta læknisfræðirannsóknastofnun landsins, lagði á bann í fyrra við fjárveitingum til tilrauna af þessu tagi. Helsta áhyggjuefni er að mennskt erfðaefni gæti komist í heila svínanna og gert þau að einhverju leyti mennskari.

Pablo Ross, sem fer fyrir rannsóknarteyminu, segir það afar ólíklegt en það sé engu að síður ástæða þess að menn halda varlega áfram.

„Við teljum litlar líkur á því að mennskur heili vaxi en það er eitthvað sem við munum rannsaka,“ segir Ross við BBC. 

Eins hafa áhyggjur verið uppi um að með því að nota svín til að framleiða líffæri fyrir menn gæti fólk orðið berskjaldað fyrir sjúkdómum sem herja á dýrin.

Þá hafa dýraverndarsinnar lýst áhyggjum af hugmyndum um að breyta svínum í líffæraverksmiðjur fyrir menn og búa þannig til nýjan vettvang fyrir þjáningar dýra. Frekar ætti að fá fleiri til að gefa líffæri. Ef enn reynist skortur á líffærum til ígræðslu megi skoða hvort rétt sé að nota svín til að rækta þau.

Gæti hlíft sjúklingum við ónæmisbælandi lyf

Til mikils er þó að vinna fyrir utan að leysa skort á líffærum til ígræðslu. Prófessor Low segir að ef stofnfrumur væru teknar úr sjúklingi sem þarf á líffæraígræðslu að halda og líffæri ræktað með aðferðinni sem vísindamennirnir eru að prófa sig áfram með þá yrði líffærið erfðafræðilega eins og það sem það ætti að leysa af hólmi nema yngra og heilbrigðara.

Með þessu væri hægt að komast hjá því að gefa sjúklingnum ónæmisbælandi lyf sem yfirleitt eru gefin við líffæraígræðslur vegna hættunnar á að líkaminn hafni þeim. Slík lyf hafa ýmsar aukaverkanir í för með sér.

Grein BBC um tilraunirnar með blendinga svína og manna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert