Níu ára gestur á Apple-ráðstefnu

Hin níu ára Anvitha Vijay.
Hin níu ára Anvitha Vijay. Skjáskot/USA Today

Þróunarráðstefnan WWDC sem tölvufyrirtækið Apple heldur fer nú fram í San Francisco. Á gestalistanum er níu ára stelpa, Anvitha Vijay. Vijay hefur þrátt fyrir ungan aldur þróað tvö snjallforrit og er spáð bjartri framtíð í hugbúnaðarheiminum.

Í frétt Fortune segir að Vijay hafi dreymt um að búa til eigið snjallforrit frá því hún var sjö ára gömul. Hún átti 130 dollara í sparifé og uppgötvaði að hún hafði ekki efni á að láta neinn annan forrita fyrir sig. Hún fór því að horfa á kennslumyndbönd í forritun á Youtube til að læra það sjálf.

„Þetta leit út fyrir að vera erfitt en ég er ánægð með að hafa ekki gefist upp,“ segir Vijay í samtali við Fortune.

Fyrsta forritið sem hún bjó til heitir Smartkins Animals og er kennsluforrit til að kenna börnum dýraheiti og dýrahljóð. Annað forritið hennar var kennsluforrit til að kenna litina.

Nú er Vijay að vinna að forriti fyrir krakka til að kenna þeim að setja sér markmið og ná þeim.

„Það krefst mikillar vinnu að búa til forrit. Það þarfa að huga að svo mörgu, forritun, hönnun, notendavænleika og prófun,“ segir hin þaulreynda Vijay.

Sjá viðtal USA Today við Vijay.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert