Rannsaka banaslys í sjálfstýrðum bíl

Tesla Model S.
Tesla Model S.

Yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú banaslys sem er mögulega það fyrsta þar sem sjálfkeyrandi bíll kemur við sögu. Ökumaður Tesla-bifreiðar sem er búin sjálfstýringu lést í Flórída í maí þegar hann lenti í árekstri við vörubíl.

Í yfirlýsingu frá Tesla kemur fram að svo virðist sem að bíllinn, sem er af gerðinni Model S, hafi ekki náð að greina hvíta hlið vörubílsins sem hafði ekið í veg fyrir hann frá björtum himninum. Slysinu er lýst sem „sorglegum missi“ í yfirlýsingunni. Ökumaðurinn var fertugur karlmaður. Vöruflutningabílstjórinn slapp ómeiddur.

Model S-bílar eru útbúnir sjálfstýringu sem getur haldið bílnum á sömu akrein, aðlagað hraða bílsins eftir því sem aðrir bílar færa sig í kringum hann og skipt um akrein án aðkomu ökumannsins. Bílaframleiðandinn segir hins vegar að ökumenn verði að hafa hendur á stýri þó að þeir noti búnaðinn.

Tesla bendir jafnframt á að 209 milljónir kílómetra hafi verið eknir með sjálfstýribúnaðinum án slysa. Banaslysið hafi að ýmsu leyti verið óvenjulegt. Vegna þess hversu vagn flutningabílsins var þá lenti Teslan undir honum með þeim afleiðingum að framrúðan rakst í botn vagnsins. Hefði bílinn lent framan eða aftan á flutningabílnum hefði öryggiskerfi bílsins að líkindum forðað alvarlegum meiðslum.

Umferðaröryggisnefnd Bandaríkjanna rannsakar nú slysið en slíkar rannsóknir leiða stundum til innköllunar bíla. Komist hún að því að sjálfstýringunni hafi verið um að kenna er þó talið líklegra að Tesla uppfæri stýrikerfi bílanna frekar en að kalla bílana inn.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert