Holuhraunsgosið á virtri vísindasýningu

Doktorsnemi og skylmingameistari. Ferill Þorbjargar Ágústsdóttur hefur verið notaður í …
Doktorsnemi og skylmingameistari. Ferill Þorbjargar Ágústsdóttur hefur verið notaður í Bretlandi til að hvetja stúlkur til náms í raunvísindum. Myndin var tekin í Holuhrauni 2015. Ljósmynd/Jenny Woods

Rannsóknir vísindamanna á framrás kvikugangsins frá Bárðarbungu sem endaði með eldgosinu í Holuhrauni hafa vakið mikla athygli á sumarsýningu The Royal Society (royalsociety.org) í London.

The Royal Society er vísindaakademía þar sem margir fremstu vísindamenn heims eiga sæti. Þykir það mikill heiður að vera valinn til þátttöku í sýningum The Royal Society og er hörð samkeppni um að fá þar inni. Sýningin hófst 4. júlí og stendur fram á sunnudag.

Þorbjörg Ágústsdóttir, doktorsnemi í jarðeðlisfræði við Cambridge-háskóla og skylmingameistari, er í rannsóknarhópnum University of Cambridge Volcano Seismology Group (eldfjalla-jarðskjálftafræðihópi Cambridge-háskóla) sem er með einn af 22 básum á sýningunni. Bob White prófessor leiðir hópinn sem er í forystu í rannsóknum á jarðskjálftafræði eldfjalla og hefur unnið viðamiklar rannsóknir á íslenskum eldfjöllum. Hópurinn rekur m.a. stórt net jarðskjálftamæla á nyrðra gosbeltinu og umhverfis Vatnajökul og á honum í samstarfi við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og Vatnajökulsþjóðgarð.

„Sýningin hefur fengið ótrúlega góð viðbrögð,“ sagði Þorbjörg. Hún sagði að búist væri við 12-15 þúsund gestum á sýninguna. Aðgangur er ókeypis. Á meðal gesta eru stórir hópar skólanema, áhugafólk um vísindi, félagar í vísindaakademíunni og aðrir vísindamenn, stjórnmálamenn, ráðherrar og kóngafólk.

Eldfjallahópurinn útbjó m.a. gagnvirkt líkan sem sýnir hvernig kvika ferðast neðanjarðar þar til hún brýst upp á yfirborðið.

Einnig er tól þar sem hægt er að leggja Holuhraun hið nýja yfir hina ýmsu staði á jörðinni til að gefa hugmynd um stærð þess.

Auk þess geta gestir sýningarinnar sjálfir valdið jarðskjálfta og prentað hann út auk þess að reyna færni sína í nákvæmri staðsetningu jarðskjálfta. Þorbjörg sagði að almenningur í Bretlandi hefði ekki sömu innsýn í jarðfræði og íbúar eldfjallaeyjarinnar Íslands.

Heimasíðan jarðskjálfta eldfjallafræði hópsins við Cambridge háskóla

Hér er kynningarmyndband eldfjallafræðihópsins

Tólið sem sýnir stærð Holuhrauns og örvalína sem sýnir ferðalag kvikugangsins frá Bárðarbungu að gosstöðvunum. Athugið að það nægir að slá inn staðarnafn í reitinn

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert