Milljónir Android-síma sýktar

Allt að 10 milljónir snjalltækja eru sýkt af nýju spilliforriti.
Allt að 10 milljónir snjalltækja eru sýkt af nýju spilliforriti. AFP

Allt að 10 milljónir snjallsíma sem hafa Android-stýrikerfi hafa smitast af spilliforriti (e. malware). Spilliforritið lætur tækin ýta á auglýsingar á netinu, með þeim afleiðingum að þær virðast vinsælli en þær raunverulega eru. Þá njósnar það um netnotkun fólks og setur upp eftirlíkingar af vinsælum smáforritum og forritum sem höfundum þess hefur verið greitt fyrir að koma á framfæri.

Talið er að spilliforritið skili höfundum sínum um 37 milljónum íslenskra króna á mánuði. Meirihluti sýktra síma sem fundist hafa er í Kína, en þar á eftir koma Indland, Filippseyjar og Indónesía.

Spilliforritið kemst inn í símana með því að nýta sér glufur í eldri gerðum Android-stýrikerfisins; útgáfum sem nefnast KitKat og JellyBean. Í yfirlýsingu frá Google segir: „Við höfum lengi verið meðvituð um þessa gerð spilliforrita og erum sífellt að bæta kerfin sem uppgötva þau. Við hindrum uppsetningu sýktra smáforrita til að halda notendum okkar öruggum.“

Nýjasta uppfærsla Android kom út í þessum mánuði og tók á fleiri en 108 öryggisatriðum. Það sem af er þessu ári hafa uppfærslur á Android tekið á yfir 270 öryggisgöllum í stýrikerfinu. BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert