Úr smitvarnargallanum í geimbúning

Kate Rubins brosir breitt á meðan tæknimenn prófa geimbúning hennar …
Kate Rubins brosir breitt á meðan tæknimenn prófa geimbúning hennar fyrir geimskotið á aðfaranótt fimmtudags. AFP

Veirufræðingurinn Kate Rubins tók bókstaflega stórt skref upp á við á ferlinum þegar henni var skotið á loft til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar fyrir helgi. Hún hefur rannsakað ýmsa smitsjúkdóma á jörðu niðri en í leiðangrinum á hún að verða fyrsta manneskjan til að raðgreina kjarnsýrur í geimnum.

Rubins er fulltrúi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA og er einn þriggja geimfara sem skotið var á loft í Soyuz-geimfari frá Baikonur í Kasakstan á aðfaranótt fimmtudags. Þau eiga að dvelja í um fjóra mánuði í geimstöðinni. Með leiðangrinum uppfyllir Rubins æskudraum sinn.

Á æskuheimili sínu í Napa í Kaliforníu skreytti Rubins, sem er fædd árið 1978, veggi herbergis síns með myndum af geimskutlunni. Hún lýsti því yfir að hún ætlaði að verða geimfari þegar hún yrði stór og fór meira að segja í geimbúðir sem barn að því er segir á vefsíðunni Science News. Þegar komið var fram á menntaskólaárin gaf hún geimfaradrauminn þó upp á bátinn þar sem hún taldi það ekki raunhæfan starfsmöguleika.

Þess í stað lærði hún sameindalíffræði og lauk doktorsprófi í líffræði krabbameina. Hún hefur rannsakað ýmsa hættulega smitsjúkdóma, sérstaklega þá sem herja á íbúa í Mið- og Vestur-Afríku, bæði í rannsóknastofum og á vettvangi, þar á meðal í Kongó.

Soyuz-eldflaugin hefur sig á loft með Rubins og félaga hennar, …
Soyuz-eldflaugin hefur sig á loft með Rubins og félaga hennar, Anatólí Ivanishin og Takuya Onishi. AFP

Vinnan með hættulega sjúkdómsvalda skilar sér

Þegar NASA auglýsti eftir geimförum árið 2009 stóðst Rubins hins vegar ekki mátið og sótti um. Úr varð að hún hlaut hnossið og hefur hún gengist undir stífan undirbúning fyrir geimferðina undanfarin sjö ár. Í honum hefur hún meðal annars tekið þátt í löngum æfingum í vatni, lært á orrustuflugvélar, lært rússnesku til að geta tjáð sig við rússneska starfsbræður í geimstöðinni og jafnvel hvernig á að skipta um klósettið í geimstöðinni.

„Þegar ég kom hingað fyrst hugsaði ég: „Ó já, ég er með alla þessa reynslu í smitvörnum“ en þetta er allt annað. Það var mjög hjálplegt vinna í sóttvarnarbúningi af hæsta öryggisstigi. Þú ert að vinna erfið verk með litla fingrafimi og takmarkaða hreyfigetu. Geimbúningurinn er hins vegar mun þyngri, 140-180 kíló, hreyfigetan er enn takmarkaðri og þú ert að vinna á öllum sex ásum,“ segir Rubins við Wired en hún er sextugasta konan sem fer út í geim.

Reynslan við að meðhöndla stórhættulegar veirur gæti þó komið að góðum notum.

„Rannsóknir mínar á jörðinni snerust um bólusótt, ebólu og erfðamengi veira. Af augljósum ástæðum munum við ekki taka ebólu með okkur í geimstöðina en störf mín með hættulega sjúkdómsvalda hjálpa manni að einbeita sér og að halda haus í erfiðum aðstæðum við mikið álag,“ segir hún við Scientific American.

Rubins er 37 ára gömul og er sextugasta konan sem …
Rubins er 37 ára gömul og er sextugasta konan sem ferðast út í geim. AFP

Sama tækni og yrði notuð til að finna líf

Um borð á Rubins að hafa umsjón með meira en 250 tilraunum sem vísindamenn um allan heim eru með í gangi í geimstöðinni. Sjálf er hún spenntust fyrir tilrauninni með DNA-raðgreininguna. Hugmyndin er að sjá hvernig tæknin virkar í fjarveru þyngdarkrafts. Þannig geta vísindamenn séð hvernig DNA bregst við nær þyngdarleysinu í geimstöðinni í rauntíma frekar en að gera samanburð á því fyrir og eftir geimferð.

„Þetta er virkilega svalt fyrir mig vegna þess að lítil handheld greiningartæki eru líka notuð á vettvangi til dæmis í apaveiru. Þessi tegund af tækni sem er notuð í afskekktum heilsugæslustöðvum á vettvangi er sama tæknin og menn myndu líklega byrja á að hanna fyrir tæki á Mars eða rannsóknir í geimnum. Stóra spurningin fyrir NASA er hvort þessi tæki geti grein lífsmerki í alheiminum,“ segir Rubins.

Frétt mbl.is: Fara fjallabaksleiðina að geimstöðinni

Eins er Rubins áhugasöm um örverubyggðina um borð í geimstöðinni.

„Þetta er lokuð hringrás. Vatnið okkar er endurnýtt, loftið er endurnýtt. Þetta er virkilega áhugavert umhverfi sem hefur verið í geimnum í tíu ár samfellt núna og við höfum í raun komið fyrir örverum þarna. Það verður virkilega áhugavert að sjá hvernig þær hafa þróast,“ segir hún.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum Rubins í geimstöðinni næstu fjóra mánuðina á Twitter-reikningi hennar en geimfarar NASA sem hafa dvalið í geimstöðinni hafa verið duglegir við að deila reynslu sinni með jarðarbúum í gegnum samfélagsmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert