Hundruð létust vegna loftslagsbreytinga

Mikil hitabylgja gekk yfir Evrópu árið 2003 og létust hundruð …
Mikil hitabylgja gekk yfir Evrópu árið 2003 og létust hundruð manna vegna hitans í París þar sem ástandið var hvað verst. Myndin er úr safni. AFP

Tengja má hundruð dauðsfalla í hitabylgjunni sem gekk yfir Evrópu árið 2003 beint við loftslagsbreytingar af völdum manna. Ný rannsókn vísindamanna bendir til þess að hnattræn hlýnun vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum hafi aukið líkurnar á dauða vegna hita um 70% í París og 20% í London.

Alls létust 735 í hitabylgjunni í París þar sem hún var skæðust. Í grein sem birtist í tímaritinu Environmental Research Letters færa vísindamenn rök fyrir því að af þeim hafi 506 látist vegna þeirra hnattrænu hlýnunar sem hefur átt sér stað af völdum manna.

Í London voru áhrif hennar minni en þar rekja vísindamennirnir 64 af 315 dauðsföllum vegna hitans til loftslagsbreytinga. Útreikningarnir byggðust á eftirlíkingu á hitabylgjunni árið 2003 í loftslagslíkönum og mati á heilsufarsáhrifum.

„Það er oft erfitt að skilja afleiðingar þess að meðalhiti reikistjörnunnar sé 1°C meiri en fyrir iðnbyltingu en nú erum við komin á það stig þar sem við getum farið að reikna út kostnað hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum fyrir heilsu manna,“ segir Daniel Mitchell við umhverfisbreytingastofnun Oxford-háskóla sem fór fyrir rannsókninni.

Rannsóknin sýni að í bara þessum tveimur borgum megi rekja hundruð dauðsfalla til hækkandi hitastigs.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert