Leitaði að Pokémonum – fann lík

Skjáskot úr leiknum.
Skjáskot úr leiknum.

Bandarísk stúlka sem var á vappi að leita að Pokémonum í nýja farsímaleiknum Pokémon Go fann mannslík.

Í leiknum, sem gefinn var út í síðustu viku, geta notendur fangað japönsku vasaskrímslin í sýndarveruleika þar sem staðsetning farsíma notandans ræður því hvaða Pokémonar finnast.

Shayla Wiggins, sem er 19 ára og frá Wyoming, ætlaði að finna einn slíkan í vatni en þess í stað fann hún lík karlmanns.

„Ég var að ganga að brúnni meðfram störndinni þegar ég sá eitthvað í vatninu,“ sagði hún í samtali við County 10 News. „Ég þurfti að kíkja aftur og áttaði mig á því að það var lík.“

Shayla sagðist hafa hoppað yfir girðingu til að komast að Pokémoninum sem sýndur var á kortinu hennar. „Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera í fyrstu. En ég hringdi strax í neyðarlínuna og þeir komu nokkuð fljótt.“

Lögreglan segir ekkert benda til þess að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti. Svo virðist sem um slys hafi verið að ræða og líklega hafi maðurinn drukknað.

Pokémon Go varð strax vinsælasta appið í iTunes-verslun Apple í síðustu viku eftir að það var gefið út í Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Verð á hlutabréfum framleiðanda leikjarins, Nintendo, rauk upp vegna vinsælda hans.

Frétt mbl.is: Pokémon skýtur Nintendo á toppinn

Fjölmargar fregnir hafa borist af smávægilegum slysum á notendum sem hafa fallið eða gengið á vegna þess að viðkomandi voru með augun á skjánum í leit að Pokémonum. Notendur hafa birt myndir af sér á samfélagsmiðlum að eltast við skepnurnar í ýmsum hættulegum aðstæðum, t.a.m. á götum úti og í bílum.

Þá vakti einn notandi sérstaka athygli fyrir að birta mynd af sér að veiða Pidgey sem birtist á rúmstokki konunnar hans, í því sem hún var að fæða barn.

Hér má sjá Pidgey birtast á fæðingardeildinni.
Hér má sjá Pidgey birtast á fæðingardeildinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert