Ætlar að opna Megaupload aftur

Kim Dotcom ætlar að opna Megaupload aftur.
Kim Dotcom ætlar að opna Megaupload aftur. AFP

Netfrömuðurinn Kim Dotcom segist ætla að opna skráaskiptisíðuna Megaupload á nýjan leik á næsta ári. Síðunni var lokað árið 2012 vegna ásakana um að þar skiptust notendur á höfundaréttarvörðu efni í miklum mæli. Dotcom segir að aðgangur allra fyrrverandi notenda verði endurvakinn.

Málaferli hafa staðið yfir á Nýja Sjálandi þar sem Dotcom er búsettur vegna síðunnar. Hann hefur undanfarin ár barist gegn því að vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann á yfir höfði sér ákæru vegna höfundaréttarlagabrota og fjársvika sem tengjast þeim.

Frétt mbl.is: Hakkarinn sem varð netfrelsishetja

Í tístum á Twitter lýsir Dotcom því nú yfir að hann hyggist opna Megaupload aftur 20. janúar en þann dag verða fimm ár liðin frá því að hann var handtekinn á heimili sínu í umfangsmikilli lögregluaðgerð.

Þar lofar hann því að notendur fá 100 GB geymslupláss, engin takmörk verði á gagnaflutningum og fólk geti tengt öll tækin sín við aðganginn. Tístin gefa einnig í skyn að rafmyntin bitcoin muni koma við sögu á endurvöktu síðunni en ekki liggur fyrir á hvaða hátt.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert