Aldur og kyn blóðgjafa gæti skipt máli

Rannsóknin leiddi í ljós að þeir sem fengu blóð frá …
Rannsóknin leiddi í ljós að þeir sem fengu blóð frá konum og yngra fólki var líklegri til að deyja en samanburðarhópar. AFP

Blóð úr ungu fólki og konum gæti gefið lakari raun fyrir sjúklinga sem fá blóðgjafir frá þeim ef marka má niðurstöður rannsóknar á tugum þúsundum gefenda og þiggjenda blóðs í Kanada. Grein um rannsóknina birtist í Journal of the American Medical Association.

Rannsóknin leiddi í ljós að þeim sem þáðu rauðar blóðfrumur frá kvenkyns blóðgjöfum var 8% hættara við að deyja af hvaða ástæðu sem er borið saman við þá sem fengu blóð úr karlmönnum. Það sama gilti um sjúklinga sem fengu blóð úr fólki á aldrinum 17-20 ára, óháð kyni, borið saman við þá sem fengu blóð úr fólki á aldrinum 40-50 ára. Fyrir aldurshópinn 20-30 ára voru blóðþegarnir 6% líklegri til að deyja.

Alls voru 30.000 blóðþegar í Kanada skoðaðir í rannsókninni og fleiri en 80.000 blóðgjafar sem gáfu blóðið sem þeir þáðu.

Vísindamennirnir segja að ekki sé hægt að fullyrða um orsakasamhengi út frá athugununum og frekari rannsókna sé þörf til að skýra fylgnina.

„Þessar niðurstöður eru forvitnilegar og benda til þess að ef þú þarft blóðgjöf gæti aldur og kyn blóðgjafans haft áhrif á klínísku niðurstöðurnar,“ segir Dean Ferguson, forstöðumaður faraldursfræðiverkefnis Ottawa-sjúkrahússins þar sem rannsóknin var gerð á árunum 2006 til 2013.

Áfram eru þó allir sem geta hvattir til þess að gefa blóð enda eru engar beinar vísbendingar fyrirliggjandi um að ein tegund af blóði sé betri en önnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert