Nýfundið sólkerfi trompar Tatooine

Teikning listamanns af reikistjörnunni og þremur móðurstjörnum hennar. Hún fannst …
Teikning listamanns af reikistjörnunni og þremur móðurstjörnum hennar. Hún fannst með innrauða mælitækinu SPHERE á VLT-sjónaukanum. ljósmynd/ESO/L. Calçada/M. Kornmesser

Logi geimgengill ólst upp undir tveimur sólum á reikistjörnunni Tatooine í Stjörnustríðsheiminum. Hópur stjörnufræðinga í Bandaríkjunum hefur nú komið auga á á reikistjörnu sem gerir einni betur og gengur á braut um þrjár stjörnur. Fundurinn kemur á óvart þar sem slík kerfi eru talin óstöðug.

Fjarreikistjarnan HD 131399Ab er í um 320 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Mannfáknum, að því er kemur fram í frétt á vef evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO). Hún er um 16 milljóna ára gömul sem gerir hana að einni yngstu fjarreikistjörnu sem fundist hefur til þessa og einni sárafárra sem tekist hefur að ljósmynda. Hitastigið á yfirborðinu er í kringum 560°C og massinn er áætlaður um fjórfaldur massi Júpíters. Þetta er því ein kaldasta og massaminnsta fjarreikistjarna sem náðst hefur á mynd.

Sporbraut reikistjörnunnar er sú víðasta sem vitað er um í fjölstirnakerfi. Til þessa hafa menn talið að sporbrautir slíkra reikistjarna væru óstöðugar vegna flókins og breytilegs þyngdarsviðs frá stjörnunum í kerfinu. Þær myndu fljótlega þjóta burt úr sólkerfum sínum. Þess vegna var talið að mjög ólíklegt væri að slíka reikistjörnur væru til. 

Einhvern veginn hefur þessi reikistjarna hins vegar komist af. Þessar óvæntu niðurstöður eru sagðar benda til þess að sólkerfi af þessu tagi gætu verið mun algengari en talið var. 

Allar á lofti um aldaskeið

Maður sem staddur væri á HD 131399Ab byggi við afar framandi aðstæður. Hann nyti annað hvort stöðugrar dagsbirtu eða sæi þrefalda sólarupprás og þreföld sólsetur á degi sem stendur yfir lengur en meðalmannsævi, allt eftir því hvaða árstíð er.

„Reikistjarnan er 560 ár að snúast í kringum stjörnurnar. Um helming þess tíma eru allar stjörnurnar þrjár sýnilegar á himninum. Daufari stjörnurnar tvær eru alltaf mjög nálægt hvor annarri en bilið á milli þeirra og björtustu stjörnunnar breytist yfir árið,“ sagði Kevin Wagner, aðalhöfundur greinar um sólkerfið í tímaritinu Science og sá sem uppgötvaði HD 131399Ab.

Stjörnufræðingar hafa sérstakan áhuga á reikistjörnum í fjölstirnakerfum þar sem þær eru dæmi um myndun reikistjarna við öfgakenndari aðstæður. Þótt fjölstirnakerfi virðist framandi fyrir okkur sem snúumst um staka stjörnu eru fjölstirnakerfi jafnalgeng og stakar stjörnur.

„Við vitum ekki hvernig þessi reikistjarna komst á þessa sporbraut í þessu framandi kerfi og við getum enn ekki sagt hvaða merkingu þetta hefur fyrir skilning okkar á sólkerfum af þessu tagi. Þetta sýnir okkur hins vegar að sólkerfin eru fjölbreyttari en áður var talið. Reikistjörnur í fjölstirnakerfum hafa fengið miklu minni athygli en eru samt hugsanlega jafnmargar og reikistjörnur við stakar stjörnur,“ sagði Wagner.

Lesa má nánar um uppgötvunina á vefsíðu ESO.

Logi geimgengill virðir fyrir sér sólirnar tvær á reikistjörnunni Tatooine. …
Logi geimgengill virðir fyrir sér sólirnar tvær á reikistjörnunni Tatooine. HD 131399Ab gerir einni sól betur. ljósmynd/Lucasfilm
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert