Verndar gúmmíhringurinn gegn HIV?

Smokkurinn er enn besta vörnin gegn HIV.
Smokkurinn er enn besta vörnin gegn HIV. AFP

Vísindamenn binda nú vonir við að innan fárra ára verði hægt að koma í veg fyrir flest HIV-smit á fátækum svæðum, sérstaklega í Afríku og Asíu, með nýrri tækni. Um er að ræða gúmmíhring úr sílikoni sem konur koma fyrir í legi sínu. Hringurinn gefur frá sér efni sem dregur úr smiti HIV-veirunnar.

Talið er að hringurinn geti minnkað líkur á smiti um 75-90%. Auðvelt er að nota hringinn og virkar hann við flestar aðstæður. Aðrar tilraunir með tækni við að koma í veg fyrir HIV-smit hafa oft strandað á því að þær virka illa ef þær eru geymdar við mikinn hita um lengri tíma. Er þetta sagt eiga ekki við um gúmmíhringinn.

Auðvelt á að vera að koma hringnum fyrir í leginu og geta konur sjálfar komið honum fyrir. Þá er hringurinn þannig að við kynlíf finnur karlmaðurinn ekki fyrir tilvist hans. 

Smokkar er sú vörn sem verndar best gegn HIV-smiti en þeir eru oft dýrir og erfitt að nálgast þá í sumum þróunarríkjum. 

Konur stjórni vörninni

Laura Kirch Kirkegaard, í dönsku AIDS-styrktarsamtökunum, segir einnig að það sé vandamál að margir karlmenn kvarti undan því að kynlíf með smokkum sé verra kynlíf en án smokka. „Þess vegna er mikilvægt við þennan hring að við erum komin með vörn gegn HIV sem konur stjórna alfarið,“ segir Kirkegaard í samtali við Politiken.

Kirkegaard er nú stödd á alþjóðlegri AIDS-ráðstefnu í Suður-Afríku þar sem læknar frá fjölmörgum löndum ræða um varnir gegn veirunni og hefur hringurinn mikið verið til umræðu þar. 

Enn eru að minnsta kosti tvö ár í að búið verði að prófa hringinn og votta um virkni hans. Þá er einnig verið að þróa leiðir til að gera hann ódýrari í framleiðslu.

„Í fátækustu ríkjunum verður að fjármagna kaup á slíkum hringjum þannig að hægt verði að dreifa honum frítt, og svo verður að kenna fólki að nota hann. Annars virkar þetta verkefni ekki. Í venjulegum ríkjum er viðbúið að hringurinn muni kosta í kringum 2 dollara,“ segir Kirkegaard.

Þróun hringsins hefur þegar staðið yfir í mörg ár. Virka efnið í hringnum, sem dregur úr smiti HIV-veirunnar, er efnið daprivirine. Það hefur verið þróað af lyfjafyrirtækinu Janssen en fyrirtækið afhenti þróunarfyrirtækinu IPM framleiðsluleyfi á efninu endurgjaldslaust. 

Fyrstu tilraunir með hringinn voru á hinn bóginn ekki góðar. Fyrsta kynslóð hringsins veitti aðeins 30% vörn gegn HIV-smiti. En eftir frekari þróun og prófanir segja vísindamenn nú að vörnin sé á bilinu 75%-90%.

Sjá frétt Politiken.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert