Hitametahrinunni lýkur - í bili

Kyrrahafið drífur áfram veðurviðburðinn sem nefnist el niño. Viðburðurinn sem …
Kyrrahafið drífur áfram veðurviðburðinn sem nefnist el niño. Viðburðurinn sem hófst í fyrra hefur verið óvenjuöflugur. AFP

El niño-veðurfyrirbrigðið er nú í andarslitrunum en áður en yfir lýkur er líklegt að það geri árið 2016 að þriðja árinu í röð sem er það hlýjasta frá upphafi mælinga. Þótt búast megi við að metahrinunni ljúki í bili eru áhrif hnattrænnar hlýnunar fjarri því að láta undan síga, að sögn Halldórs Björnssonar, hópstjóra veðurs- og loftslagsbreytinga á Veðurstofunni.

Loftslag jarðar hefur orðið fyrir miklum áhrifum vegna eins sterkasta el niño-viðburðar í langan tíma en hann hefur staðið yfir frá því í fyrra. Ár þegar stórir El niño-atburðir eiga sér stað eru mjög líkleg til að slá öll hitamet. Síðast gerðist það árið 1998 en þá segir Halldór að það hafi tekið sjö ár þangað til hnattræn hlýnun gerði það að verkum að metið var jafnað.

Árin 2014 og 2015 voru lýst þau hlýjustu á jörðinni frá því að mælingar hófust. Því hefur verið spáð að út frá meðalhita fyrstu mánaða þessa árs séu miklar líkur á að árið 2016 hrifsi hitametið. Það yrði þá í fyrsta skipti sem metið er slegið þrjú ár í röð.

Þessi mikla hlýnun hefur vakið athygli á þeim loftslagsbreytingum sem menn eru að valda á jörðinni með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum. 

Gervihnattamyndir NASA sem sýna el niño í Kyrrahafinu í kringum …
Gervihnattamyndir NASA sem sýna el niño í Kyrrahafinu í kringum miðbaug árin 1997 (t.v.) og 2015 (t.h).

Stór el niño á við áratug af hnattrænni hlýnun

Halldór segir að stórir el niño-viðburðir séu sem betur fer sjaldgæfir. Síðustu áratugi hafi þeir átt sér stað árin 1983, 1998 og svo núna 2015. Jörðin sé að hlýna um 0,17°C á áratug um það bil. Það þýði að á þeim tíma sem líður á milli stórra el niño-viðburða nái hnattræn hlýnun að jafna hitamet sem sett voru á meðan á þeim stóð.

Oft sé metið slegið þegar hefðbundinn el niño-viðburður á sér næst stað. Þannig hafi metjöfnunin árið 2005 eftir stóra el niño-viðburðinn árið 1998 fengið hjálp frá því sem Halldór lýsir sem frekar máttleysislegum el niño.

Frétt mbl.is: Síðasta ár það langhlýjasta í heiminum

Árið 2014 var hins vegar sérstakt því að þá var nýtt met sett fyrir meðalhita á jörðinni án nokkurrar aðstoðar frá el niño-viðburði. Árið 2015 mældist 0,16°C yfir hitanum árið áður og því segir Halldór að el niño-viðaukinn nemi um það bil einum áratugi af hnattrænni hlýnun.

Eftir maímánuð á þessu ári hafi ýmsir loftslagsfræðingar reiknað út að 95% líkur séu á því að hitametið falli aftur í ár. Líklegt sé þó að þær líkur fari minnkandi eftir því sem dregur úr áhrifum el niño.

Kóralar hafa liðið fyrir óvenjumikinn hita í Kyrrahafinu sem tengist …
Kóralar hafa liðið fyrir óvenjumikinn hita í Kyrrahafinu sem tengist el niño-viðburðinum sem hefur staðið yfir frá því í fyrra. AFP

Met slegið innan tólf ára í mesta lagi

Hitinn mun að líkindum falla á næsta ári miðað við metárin sem á undan eru gengin. Halldór segir að meðalhiti jarðar gæti þá verið meira í líkindum við þann sem mældist árið 2014 þegar áhrifa el niño gætti ekki. Hitinn gæti jafnvel farið enn neðar ef svonefndur la niña-viðburður fylgir í kjölfarið.

Þannig er fyrirséð er að metahrinunni ljúki nú þegar fjarar undan el niño en það þýðir þó ekki hnattrænni hlýnun fari hnignandi.

„Það að ekki komi met í nokkur ár eftir stóran el niño segir lítið um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þau áhrif hafa hvorki aukist né minnkað. Eina leiðin til að minnka þau er að draga úr gróðurhúsaáhrifum, til dæmis með því að losa minna af gróðurhúsalofttegundum, binda kolefni og svo framvegis,“ segir Halldór.

Frétt mbl.is: Telja el niño nú í rénun

Spurningin er þá hvenær búast má við því að hnattræn hlýnun valdi því að met el niño-áranna verði slegin.

Halldór segir að hlýna ætti um 0,017°C að jafnaði þó að verulegar sveiflur séu að vísu á milli ára. Hann hefur reiknað út að 40% líkur séu á því að hitametið verði slegið á fyrstu fimm árunum frá lokum el niño og ríflega helmingslíkur séu á því að það gerist á fyrstu sex árunum. Nánast öruggt sé að það gerist innan tólf ára, það er að segja fyrir árið 2028.

„Það kom mér á óvart að það eru 20% líkur á að metið falli á fyrstu þremur árunum frá því að el niño lýkur,“ segir Halldór í tölvupóstsvari við fyrirspurn Mbl.is 

Hann setur þó tvo fyrirvara við þessar niðurstöður sínar.

„Í fyrsta lagi gæti árið 2016 slegið metið frá 2015 rækilega og „el niño-viðaukinn“ þá meiri. Þetta myndi þýða að það tæki enn lengri tíma að slá metið. Í öðru lagi, þá er mjög vel hugsanlegt að Kyrrahafið fari í la niña-ástand á næstu árum en þá er ólíklegra að met falli á fyrstu þremur árunum,“ segir Halldór.

Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands.
Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Kristinn

Fyrri metár notuð í afneitunaráróðri

Afneitun á loftslagsvísindum og raunveruleika loftslagsbreytinga er enn áberandi sums staðar, ekki síst í bandarískum stjórnmálum þar sem Repúblikanaflokkurinn hefur tekið sér afgerandi stöðu gegn viðtekinni þekkingu í loftslagsmálum.

Síðasti stóri el niño-viðburðurinn árið 1998 hefur ítrekað verið notaður af loftslagsafneiturum sem reyna að halda því fram að hnattræn hlýnun hafi ekki átti sér stað eða að „hlé“ hafi orðið á henni. Í því skyni hafa þeir birt gröf yfir þróun meðalhita jarðar þar sem árið 1998 er notað sem upphafsár einmitt vegna þess að það var þá fordæmalaust metár og þróunin árin á eftir virtist þá ekki sýna fram á verulega hlýnun.  

„Öll þessi umræða um hið svokallaða hik í hnattrænni hlýnun bar þess nokkuð keim að menn væru að rugla saman náttúrulegum breytileika og hinni þvinguðu hlýnun jarðar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þó hugsanlegur „skortur“ á metárum á næstu árum verði án efa fóður sumra til að segja að hnattræn hlýnun hafi stöðvast þá eru það ekkert sérstaklega sterk rök,“ segir Halldór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert