Segjast hafa fundið lækningu við astma

Rannsóknir á músum og mönnum benda til þess að draga …
Rannsóknir á músum og mönnum benda til þess að draga megi úr líkum á astma með því að slökkva á einu geni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Lækning við astma kann að vera á næsta leiti eftir að vísindamenn uppgötvuðu að með því að „slökkva“ á einu geni sé mögulega hægt að koma í veg fyrir astma.

Rannsóknin var unnin af vísindamönnum við háskólann í Southampton og niðurstöður hennar birtust í The Journal of Clinical Investigation Insight. Vísindamennirnir uppgötvuðu að genið ADAM33 á stóran þátt í því að valda breytingum á öndunarfærum, sem aftur valda vöðvakippum og ertingu, er verða svo kveikjan að astmakasti.

Genið ADAM33 framleiðir ensím sem tengir sig við vöðva í öndunarfærum. Ensímið getur á hinn bóginn einnig losnað frá og farið á flakk umhverfis lungun. Það veldur breytingu á öndunarfærunum með framleiðslu nýrra og óþarfra vöðva og æða, sem gerir fólki síðan erfitt um vik við að anda séu ofnæmisvakar eins og frjó eða ryk einnig til staðar.

Rannsóknir á vefjasýnum úr mönnum og músum benda til þess að ef slökkt er á geninu þá veldur ensímið ekki frekari vandræðum.

„Þessi uppgötvun gjörbreytir skilningi okkar á greininni, svo ekki sé meira sagt,“ hefur Daily Telegraph eftir Hans Michel Haitchi, prófessor í öndunarfæralækningum. „Árum saman þá höfum við talið að breytingar á öndunarfærum séu afleiðing ertingar vegna ofnæmisviðbragða, en þessar niðurstöður segja okkur annað.“

Dró úr breytingum á öndunarfærum um 50%

Vísindamennirnir komust að því að eitt og sér olli ADAM33-genið breytingum á vöðvum og æðum umhverfis öndunarfærin, en þetta olli þó engum vandræðum. Þegar rykmaurar bættust aftur á móti við jöfnuna, þá jókst erting og breytingar á öndunarfærum verulega.

Önnur rannsókn sýndi fram á breytingar á öndunarfærum músa, þar sem kveikt hafði verið á ADAM33-geninu strax á fósturskeiði. Þegar slökkt var á geninu á ný hurfu áhrifin.

Þá voru einnig rannsökuð ofnæmisáhrif rykmaura á astma í músum, sem búið var að fjarlægja ADAM33-genið úr og dró úr breytingum á öndunarfærum um 50% og ertingu í hálsi um 35% þegar genið var fjarlægt.

„Niðurstöður rannsókna okkar ganga í berhögg við þann almenna skilning að breytingar á öndunarfærum astmasjúklinga séu afleiðing ertingarinnar,“ sagði Haitchi.

„Þessi í stað höfum við sannað að villuráfandi ADAM33-gen veldur breytingunum sem síðan valda ofnæmisertingu og vöðvakippum í öndunarfærum þegar ofnæmisvakinn er til staðar.

Enn mikilvægara er, að við teljum, að koma í veg fyrir að ensímið fari ferða sinna, því ef við getum stöðvað virkni þess getum við komið í veg fyrir astma.“

Haitchi sagði öndunarfærabreytingarnar sem genið veldur draga úr hæfni lungnanna til að starfa venjulega og að ekki sé hægt að koma í veg fyrir slíkt með hefðbundinni stera meðferð.

„Þess vegna teljum við að með því að stöðva ferlið sem ADAM33 veldur getum við komið i veg fyrir astma hjá fjölda þeirra 5,4 milljóna Breta sem nú eru með sjúkdóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert