Ekki hlýrra frá því mælingar hófust

Börn í Los Angeles kæla sig í sumarhitanum.
Börn í Los Angeles kæla sig í sumarhitanum. AFP

Síðasti mánuður var sá hlýjasti á jörðinni frá því að mælingar hófust samkvæmt gögnum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Júlímánuður var jafnframt tíundi mánuðurinn í röð sem slær hitamet fyrir þann tiltekna mánuð. Vísindamenn segja að 99% líkur séu á því að árið í ár verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust.

„Júlí 2016 var algerlega hlýjasti mánuður frá því að mælingar hófust,“ segir Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknarstofnunar NASA (GISS) sem heldur utan um hitastigsmælingarnar.

Meðalhitinn í júlí var 0,1°C meiri en í næstheitasta júlímánuðinum árið 2011. Júlí var ennfremur 0,84°C hlýrri en meðaltal áranna 1951-1980. Meiri hlýindi voru á flestum land- og hafsvæðum jarðarinnar en í venjulegum júlímánuði. Á sumum svæðum á Norðurheimsskautinu var hins vegar allt að fjórum gráðum hlýrra en vanalega.

David Karoly, loftslagsvísindamaður við Háskólann í Melbourne, segir við The Guardian að mælingarnar þýði að júlímánuður hafi verið um 1,3°C hlýrri en meðaltal tímabilsins fyrir iðnbyltingu.

Mælingar japönsku veðurstofunnar benda einnig til þess að júlímánuður hafi slegið hitamet á jörðinni. Bandaríska haf- og loftslagsstofnunin NOAA birtir greiningu sína fyrir júlí í þessari viku.

„Mér finnst það svolítið áhyggjuefni að við skulum fara í gegnum þessi met eins og ekkert sé í ár,“ segir Jason Furtado, prófessor í veðurfræði við Oklahoma-háskóla við Washington Post. 

Óvenjusterkur el niño-viðburður hefur sett mark sitt á loftslag jarðarinnar frá því í fyrra en hann fjaraði út í vor. Frávikið frá meðalhita er því ekki eins mikið nú og þegar veðurfyrirbrigðisins naut við.

Simon Donner, prófessor í loftslagsfræði við Háskólann í Bresku Kólumbíu í Kanada, segir að ekki sé hægt að rekja alla hlýnunina í ár til el niño.

„Metin sem hafa verið sett árið 2016 hafa malað þau sem voru sett í fyrri el niño-viðburðum,“ segir hann.

Frétt Washington Post

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert