Heilkorn lengja lífið

Það virðist mikilvægt að borða nóg af heilkornavörum.
Það virðist mikilvægt að borða nóg af heilkornavörum. Skjáskot/Yale.edu

Neysla heilkorna hefur áhrif á langlífi manna. Þetta er niðurstaða tveggja rannsókna sem birst hafa nýlega, en greint er frá þessu á vef embættis landlæknis.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar, sem birtist í British Medical Journal í júní, eru þeir sem neyta þriggja skammta af heilkornavörum á dag í 22% minni áhættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma, dánartíðni þeirra er í heild 18% lægri, 14% lægri af völdum heilablóðfalls og 15% lægri af völdum krabbameins.

Niðurstöðurnar sýndu mestan ávinning hjá þeim sem juku neyslu sína úr engum heilkornavörum í tvo skammta á dag, eða 60 grömm, sem jafngildir um tveimur sneiðum af heilkornabrauði.

Niðurstöður annarrar rannsóknar, sem gerð var við Harvard T.H. Chan School of Public Health, eru svipaðar, en samkvæmt þeim er heildardánartíðni þeirra sem neyta þriggja skammta af heilkornavörum á dag 20% lægri en hjá þeim sem borða lítið eða ekkert. Dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma var 22% lægri hjá þeim sem neyttu þriggja skammta heilkornavara og 15% lægri af völdum krabbameins.

Fleiri rannsóknir hafa komist að sömu niðurstöðu. Í febrúar birtust niðurstöður rannsóknar í American Journal of Clinical Nutrition, þar sem rannsakendur höfðu fylgst með mataræði 55.000 Dana í yfir 13 ár.

Þeir sem neyttu mest heilkornavara voru í allt að 27% minni hættu á því að fá hjartaáfall en þeir sem neyttu minnst. Samkvæmt niðurstöðunum má draga úr líkum á hjartaáfalli um 12% með því að auka neyslu heilkorna um 25 grömm á dag, eða um eina brauðsneið, en samkvæmt rannsókninni hafa rúgur og hafrar mest áhrif.

Neysla Íslendinga virðist batnandi

Landlæknisembættið ráðleggur fólki að borða a.m.k. tvo skammta af heilkornavörum á dag, en ráðleggingarnar má m.a. finna á vef embættisins. Fólk er hvatt til að nota heilkorn í bakstur og grauta og velja bygg, hýðishrísgrjón eða heilkornapasta sem meðlæti í stað fínunninna vara.

Ýmislegt bendir til þess að mataræði Íslendinga fari batnandi og neysla heilkorna aukist. Niðurstöður könnunar embættis landlæknis sem gerð var 2010–2011, sýnir að neysla Íslendinga á grófum brauðum jókst úr 12 grömmum í 22 grömm á dag, frá 2002, og neysla á hafragraut fór úr 14 grömmum á dag í 29 grömm á sama tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert