Stór skjálfti á þriggja ára fresti

Ítalski bærinn Amatrice hrundi svo gott sem til grunna í …
Ítalski bærinn Amatrice hrundi svo gott sem til grunna í jarðskjálftanum í vikunni. AFP

Jarðskjálftar yfir 5,8 að stærð ríða yfir miðja Ítalíu á þriggja ára fresti án þess að vitað sé hvar og hvenær þeir bresta á miðað við reynslu síðustu hundrað ára. Sérfræðingur Veðurstofunnar segir að þéttbýli og ónógur frágangur húsa valdi því hversu viðkvæm byggðin þar er fyrir tjóni.

Að minnsta kosti 284 létust í jarðskjálfta upp á 6,2 sem reið yfir Mið-Ítalíu aðfaranótt miðvikudags. Nær allir þeir sem létust bjuggu í þremur gömlum og fámennum bæjum. Bæir eins og Amatrice í Rietl-sýslu í Lazio-héraði og Pescara del Tronto hrundu svo gott til grunna.

Í pistli á vef Veðurstofu Íslands skrifar Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár, um hörmungarnar á Ítalíu. Hún bendir á að aðeins eru rúm sjö ár síðan um 300 manns fórust í L‘Aquila, nokkru sunnar, og allstór skjálfti hafi orðið við norðurenda Appennina-fjalla árið 2012. Stærri skjálftar hafa orðið á byggðu bóli án svona mikillar eyðileggingar en það sé samspil náttúruvár og tjónnæmis samfélaga sem stýri áhættunni.

Flóknar flekahreyfingar á Ítalíu

Kristín lýsir því hvernig jarðskorpan skiptist í risastóra fleka og það sé á mótum þeirra sem jarðhræringar verði. Hræringarnar séu vægar á gliðnunarmótum þar sem flekana rekur í sundur eins og á Atlantshafshryggnum (og þar með hér á Íslandi) en miklar þar sem flekarnir rekast á.

„Stóra myndin er sú að Afríkuflekinn gengur til norðurs og rekst á Evrasíuflekann og reisir þann fellingafjallgarð sem Alpafjöllin eru. Afleiðingarnar eru breytilegar á hverjum stað,“ skrifar hún.

Á Ítalíu séu flóknar flekahreyfingar en skjálftavirkni sé einnig algeng í Grikklandi, Tyrklandi og fleiri löndum á svæðinu. Mót minni jarðskorpufleka gangi í gegnum Mið-Ítalíu, á um 50 km breiðu belti, og þar sé jarðskjálftahætta sérstaklega mikil.

„Þar hafa á litlu svæði, 100x100 km að flatarmáli, orðið sautján skjálftar meiri en 6 að stærð undanfarin þúsund ár. Þarna má sem sagt eiga von á stórum skjálfta á 66 ára fresti. Vanalega mælast 5-20 smáskjálftar á dag, sem finnast ekki,“ skrifar Kristín

Stærri skjálftarnir séu ekki svo gífurlega stórir en upptök þeirra liggi nokkuð grunnt, á 5-40 km dýpi, og þeir valdi miklum skemmdum miðað við stærð. Tjónnæmið sé mikið, bæði vegna þess hversu svæðið sé þéttbýlt og af því að húsin séu ekki nægilega vel gerð og langflest mjög gömul.

Þyngra en tárum taki

Þéttbyggt er í þorpunum sem urðu jarðskjálftanum að bráð. Kristín segir að þar séu 50-150 manns á ferkílómetra borið saman við 0,5-12 á íslenskum jarðskjálftasvæðum. Þá séu aðeins mjóir stígar milli húsa. Í aldaraðir hafi verið byggt úr því sem til fellur; grjóti úr árfarvegum, leir og mold. Önnur hús, t.d. kirkjur, séu vel byggð en fyrir þær séu sóttir fínni og betri steinar. Svo eftirsótt sé svæðið að byggt sé ofan á eldri hús, jafnvel úr þungu efni og frágangur ónógur.

„Þetta viðgengst, þrátt fyrir 200 ára sögu reglugerða um byggingar. Nútímalegir staðlar voru settir á sjöunda ártugnum en það er ekki farið eftir þeim því eftirfylgni skortir. Þær byggingar sem byggðar eru eftir stöðlum standast skjálftana; þetta er þyngra en tárum taki. Mjög dýrt er að gera viðeigandi breytingar á gömlu húsunum og þó endurgreiðsla sé í boði frá ríkinu, hefur gengið treglega að fá þau fyrirheiti uppfyllt,“ skrifar Kristín.

Pistill Kristínar Jónsdóttur á vef Veðurstofunnar

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands. ljósmynd/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert