Luku árslangri einangrunarvist

Sex vísindamenn luku í dag árslangri dvöl í hvelfingu á fjallinu Mauna Loa á Hawaii, þar sem líkt var eftir aðstæðum á Mars. Vísindamennirnir máttu aðeins yfirgefa hvelfinguna í geimbúningum og þurftu að láta sér nægja takmörkuð gæði, stunda rannsóknir og freista þess að forðast árekstra við kollega sína.

Kim Binsted, sem fer fyrir rannsóknum hjá Space Exploration Analog and Simulation á Hawaii, sagði að vísindamennirnir iðuðu í skinninu yfir því að komast í sjóinn og neyta ferskvöru, auk annarra matvæla sem voru ekki á boðstólnum í hvelfingunni.

Rannsóknin er fjármögnuð af NASA, en unnin við University of Hawaii. Að sögn Binsted er um að ræða aðra lengstu tilraun af þessu tagi, en Rússar framkvæmdu eina slíka sem varði í 520 daga.

Frétt mbl.is: Hefja árslanga einangrunarvist

Vistarverur vísindamannanna.
Vistarverur vísindamannanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert