Afrískum gresjufílum hefur fækkað um 30%

Gríðarlega fækkun fíla má rekja til mikillar eftirspurnar eftir fílabeini, …
Gríðarlega fækkun fíla má rekja til mikillar eftirspurnar eftir fílabeini, sem er m.a. notað í skrautmuni og til lækninga. AFP

Samkvæmt viðamikilli þriggja ára loftrannsókn á afríska gresjufílnum fækkaði dýrunum um 144.000 á árunum 2007-2014. Um er að ræða 30% fækkun, sem aðallega má rekja til veiðiþjófnaðar.

Það var auðjöfurinn Paul Allen, annar stofnenda Microsoft, sem fjármagnaði rannsóknina. Hann segir niðurstöðurnar verulega truflandi.

Rannsóknin, sem kostaði 6,3 milljarða evra, er sú fyrsta sinnar tegundar og fólst í því að vísindamenn flugu yfir 18 Afríkuríki og töldu einstök dýr og hræ, í þeim tilgangi að búa til viðmið fyrir framtíðarrannsóknir.

„Vopnuð þessari vitneskju um dramatíska fækkun í fílastofninum, ber okkur að grípa til aðgerða,“ sagði Allen þegar niðurstöðurnar voru birtar á fundi International Union for Conservation of Nature (IUCN) á Hawaii.

Rannsóknin hefur verið nefnd Great Elephant Census (GEC) en hún hófst í desember 2013. Við framkvæmd hennar var notuð 81 flugvél, mönnuð 286 áhafnarmeðlimum. Svæðið sem var undir taldi 463.000 ferkílómetra og spannaði 18 lönd.

Alls töldu vísindamennirnir 352.271 fíl en þeim hafði, sem fyrr segir, fækkað um 144.000 frá 2007. Árleg fækkun meðal gresjufílategundarinnar nemur 8%, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Fækkunin var mest í Angóla, Mósabík og Tansaníu, þar sem veiðiþjófnaður er stundaður í stórum stíl. Þá er tegundin sögð nærri útrýmingarhættu í Austur-Kongó, norðurhluta Kamerún og suðvestur Sambíu.

Ástandið er ekki alls staðar jafnslæmt, þar sem gresjufíllinn var sagður stöðugur eða jafnvel í sókn í Suður-Afríku, Botswana, Úganda, hlutum Kenía, Sambíu, Simbabve, Malaví og á verndarsvæði sem nær yfir landamæri Benín, Níger og Búrkína Fasó.

„Ef við getum ekki bjargað afríska fílnum, hvaða von á þá annað dýralíf Afríku?“ spyr Mike Chase hjá verndunarsamtökunum Elephants Without Borders, sem fór fyrir rannsókninni.

Enn á eftir að telja í tveimur ríkjum; Mið-Afríkulýðveldinu og Suður-Súdan, þar sem átök erfiða alla rannsóknarvinnu. Allen hefur nú í hyggju að efna til áþekkrar rannsóknar á afríska skógarfílnum, sem er sömuleiðis talinn hafa orðið illa úti vegna veiðiþjófnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert