Fordæmalaus hlýnun yfir þúsund ár

Hraðar loftslagsbreytingar eiga sér nú stað á jörðinni vegna losunar …
Hraðar loftslagsbreytingar eiga sér nú stað á jörðinni vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. ljósmynd/NASA

Engin fordæmi eru fyrir viðlíka hraða hnattrænnar hlýnunar og á sér stað nú á jörðinni að minnsta kosti síðustu þúsund árin. Yfirmaður loftslagsvísinda hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA telur afar ólíklegt að markmið um að halda hlýnun innan við 1,5 °C náist.

Hvert hitametið af öðru hefur verið slegið á jörðinni undanfarna mánuði en Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknastöð NASA, segir 99% líkur á að árið í ár verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust á síðustu áratugum 19. aldar.

Gögn um hitastig á jörðinni sem ná lengra aftur í tímann, eins og ískjarnar og setlög, benda til þess að engar hliðstæður séu til undanfarin þúsund ár fyrir þeirri hröðu hlýnun sem stendur yfir vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

„Á síðustu þrjátíu árum höfum við farið inn í einstakt tímabil. Það er fordæmalaust í þúsund ár. Það er ekkert tímabil sem sýnir þá leitni sem við höfum séð á 20. öldinni þegar kemur að þróun [hitastigs],“ segir Schmidt við The Guardian.

Tífalt hraðari en hlýnun eftir ísaldirnar

Þjóðir heims samþykktu það markmið að halda hlýnun jarðar vel innan við 2 °C og gera sitt besta til að takmarka hana við 1,5 °C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu með Parísarsamkomulaginu sem var gert í desember. Schmidt er ekki trúaður á að það markmið náist.

„Að halda hitastigi fyrir neðan 1,5 °C öryggismörkin krefst mikils og afar hraðs samdráttar í losun á koltvísýringi eða samhæfðrar jarðmótunar [e. geoengineering]. Það er afar ósennilegt. Við erum ekki einu sinni að draga úr losun sem samsvarar því að halda hlýnun innan við 2 °C,“ segir Schmidt.

Í viðtali við mbl.is í fyrra sagði Schmidt að hann teldi ekki raunhæft að halda hlýnun jarðar innan við 2 °C eins og yfirlýst markmið þjóða heims hefur verið.

Útreikningar NASA sem byggjast meðal annars á gögnum bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar NOAA benda til þess að meðalhiti jarðar hafi risið um 5-7 °C á fimm þúsund ára tímabili eftir ísaldir. Sú hnattræna hlýnun sem eigi sér stað nú sé því um tífalt hraðari en þær loftslagsbreytingar sem hafa átt sér stað í kringum ísaldirnar.

Frétt mbl.is: Jörðin verður annar staður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert