Eldflaug SpaceX sprakk

Þykkan svartan reyk leggur frá skotpallinum á Canaveral-höfða eftir sprenginguna.
Þykkan svartan reyk leggur frá skotpallinum á Canaveral-höfða eftir sprenginguna. Ljósmynd/NASA

Svo virðist sem eldflaug SpaceX sem verið var að undirbúa fyrir geimskot hafi sprungið á skotpalli í Kennedy-geimmiðstöðinni í Flórída fyrir stundu. Ekki liggur fyrir hvort að einhver  slasaðist í sprengingunni eða hvað olli henni.

Þykkan reyk sést enn leggja frá skotpallinum á Canaveral-höfða á vefmyndavélum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Vefurinn Spaceflight Now greinir frá því Falcon 9-eldflaug og ísraelskt gervitungl hafi verið á skotpallinum og undirbúningur staðið yfir fyrir geimskot. Space.com segir að um fjarskiptagervitunglið Amos 6 í eigu ísraelska fyrirtækisins Spacecom hafi verið að ræða.

SpaceX er nú sagt hafa staðfest að bæði eldflaugin og farmur hennar að andvirði 200 milljóna dollara hafi glatast í sprengingunni.

AP-fréttastofan hefur eftir bandarísku geimvísindastofnuninni NASA að SpaceX hafi verið að gera reglubundnar prófanir á hreyfli eldflaugarinnar þegar sprengingin átti sér stað. Skjóta átti eldflauginni og gervitunglinu á braut um jörðina á laugardag.

Byggingar í nokkurra kílómetra fjarlægð eru sagðar hafa nötrað vegna sprengingarinnar og fjöldi sprenginga hafi haldið áfram í nokkrar mínútur.

Sprengingin átti sér stað um klukkan 9 að staðartíma á Flórída eða um 13 að íslenskum tíma.

SpaceX hefur átt mikilli velgengni að fagna að undanförnu en það er í eigu Elons Musk, eiganda rafbílaframleiðandans Tesla og stofnanda Paypal. Því hefur ítrekað tekist að lenda hluta af eldflaug sinni heilu og höldnu eftir geimskot en það er liður í markmiði fyrirtækisins að lækka kostnað við geimskot verulega. Sprengingin í dag er því verulegt bakslag fyrir fyrirtækið.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert